Fyrirtækið Fagtækni sýnir á Agora-sýningunni búnað sem gerir notendum mögulegt að stjórna ljósum, hita og opna og loka gluggum um fjarstýringu. Búnaður frá Fagtækni nemur einnig birtu og vindhraða. Fyrirtækið aðlagar búnað frá ýmsum framleiðendum, en með honum er meðal annars hægt að draga fyrir glugga, slökkva eða kveikja ljós eða draga úr birtu með einni skipun á rofa eða fjarstýringu.
Búnaður frá Fagtækni getur einnig stýrt vatnshita með þeim hætti að hitanemi gefur forriti skilaboð sem eru send yfir í sjálfvirkan krana. Þá er hægt að stjórna birtu innanhúsn eftir birtuskilyrðum utanhúss. Einnig getur búnaðurinn lokað og opnað gluggum sjálfvirkt eftir vindhraða.
Samkvæmt upplýsingum frá Fagtækni hefur búnaður sem hér er nefndur einkum verið í notkum hjá fyrirtækjum en það hefur færst í vöxt að hann sé tekinn í notkun á heimilum á síðustu tveimur árum.
Þá hefur Fagtækni kynnt netgreini, OptiView, sem greinir vandamál í tölvukerfum. Með því að stinga tækinu í samband við kerfi finnur það allan búnað og vinnustöðvar (IP-tölur) og sýnir flöskuhálsa sem eru fyrir hendi. Það greinir einnig upplýsingar sem tölvur senda á milli sín innan kerfis og sér hvers konar umferð er á netkerfinu. Tækið safnar upplýsingum og greinir vandamál. Þá er hægt að fjarstýra aðgerðum um Netið, samkvæmt upplýsingum Fagtækni.
Agora, fagsýningu þekkingariðnaðarins, lýkur á morgun, laugardaginn 12. október. Þá verður sýningin opin almenningi, en fyrstu tvo dagana er um fagsýningu að ræða. Sýningin stendur frá kl. 11 til 19. Á Agora eru tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki fyrirferðarmikil, svo og fjarskiptafyrirtæki og ráðgjafarfyrirtæki.