Ökumenn taka minna tillit til hjólreiðamanna með hjálm

Michael Schumacher með mótorhjólahjálm á höfði.
Michael Schumacher með mótorhjólahjálm á höfði. AP

Ökumenn taka minna tillit til hjólreiðamanna, sem eru með hjálm, en hjálmlausra hjólreiðamanna og aka nær þeim, samkvæmt niðurstöðum nýrrar breskrar rannsóknar. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Rannsóknin er unnin af breska umferðarsálfræðingnum Ian Walker, sem starfar við Bath-háskóla, en Walker framkvæmdi rannsóknina á eigin hjóli sem búið var skynjara, sem skráði nálægð bíla sem óku framhjá honum, og myndbandsupptökuvél. Walker skráði 2.300 bíla í Bristol og Salisbury og sýna niðurstöðurnar að ökumenn óku að jafnaði átta sentimetrum nær honum þegar hann var með hjálm. Þá var tvisvar ekið á hann á meðan hann vann að rannsókninni en í bæði skiptin var hann með hjálm er óhöppin urðu.

Talið er að niðurstöður rannsóknarinnar muni hafa áhrif á umræðuna um það hvort lögbinda eigi notkun hjólahjálma í umferðinni í Bretlandi. „Við vitum að reiðhjólahjálmar gera gagn þegar hjólreiðamenn detta á lítilli ferð og þau auka mjög öryggi barna í umferðinni. En hvað varðar öryggi hjólreiðamanna sem verða fyrir bíl er óljóst hvort hjálmur eykur öryggi. Rannsóknin sýnir að hættan á því að verða fyrir bíl er meiri þegar maður notar hjálm,” segir Ian Walker í viðtali við Daily Telegraph.

„Hjálmurinn gerir það að verkum að bílstjórar telja hjólreiðamenn vera reynda og alvarlega hjólreiðamenn og sýna þeim því minna tillit og faraglannalegar. Og þegar þeir keyra nær hjólreiðamanninum minnkar öryggi hans, ef hann þarf til dæmis skyndilega að beygja hjá polli eða holu í veginum.

mbl.is

Bloggað um fréttina