Dagar hljóðsnældunnar taldir

wikimedia.org

Það er erfitt að skilgreina hvenær tækni verður úrelt og hvenær dagar hennar eru beinlínis taldir. Tölvudisklingurinn lifir t.a.m. víða ágætu lífi þrátt fyrir að vart fáist lengur tölvur með slíku drifi. Það hlýtur þó að vera jafngott tækifæri og hvað annað til að kveðja hljóðsnælduna að breska verslanakeðjan Currys, sem sérhæfir sig í sölu á raf- og hljómtækjum ætlar að hætta að selja hljóðsnældur.

Snældurnar verða reyndar seldar meðan birgðir endast, en fleiri verða ekki framleiddar í nafni keðjunnar. Hljóðsnældan á enda erfitt með að keppa við nýja tækni, en nýr iPod spilari rúmar t.a.m. allt að 1.500 snældur, auk þess sem notendur sleppa við þá pínu að þurfa að kljást við segulband sem flækst hefur í tækinu.

Segulbandssnældan, eða kasettan líkt og margir kölluðu hana, kom fyrst á markað árið 1963. Útgefnar hljómplötur voru seldar á snældum en einnig voru seldar „tómar” snældur, og var þá hægt að hljóðrita á hana af plötum, úr útvarpi, eða af annarri snældu, með hinum vinsælu tvöföldu kasettutækjum.

Sala á snældum náði hámarki í Bretlandi árið 1989, skömmu áður en geisladiskurinn náði yfirhöndinni, en það árið seldust 83 milljónir snælda.

mbl.is

Bloggað um fréttina