Gætum grætt á hlýnun jarðar

Verksmiðja blæs reyk í Kína.
Verksmiðja blæs reyk í Kína. SHENG LI

Hlýnun jarðar gæti kostað Evrópusambandið allt að 65 milljarða evra á ári, jafnvirði 12.025 milljarða króna, en þrátt fyrir það gætu lönd í norðurhluta álfunnar endað á því að græða á hlýnuninni. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem kynnt var í dag.

Rannsóknin, sem gerð var af EU Join Research Centre, eða sameiginlegri rannsóknarstofnun ESB, bendir til þess að ef loftslag væri í dag eins og spáð er að það verði árið 2080, semsagt 2,5 gráðu meiri meðalhiti, þyrftu aðildarríkin að eyða á bilinu 20-65 milljörðum evra árlega í að takast á við afleiðingarnar. Þess má geta að rannsóknin er birt þegar skammt er í loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn.

Kostnaðurinn sem hér um ræðir er af höfundum rannsóknarinnar sagður vera vegna landbúnaðar, flóða, eyðingu strandlínunnar, fólksflutninga og breytinga í túrisma. Til dæmis reiknast þeim til að alls muni landbúnaðarframleiðsla minnka um 10% vegna slíkrar breytingar á veðurfari og flóð gætu haft áhrif á líf 400.000 manns á ári til viðbótar við það sem nú er.

Ferðaþjónusta er eina atvinnugreinin sem myndi nánast ekki skaðast neitt þegar litið er á ESB í heild. Hins vegar yrðu breytingar á henni innan svæðisins. Suður-evrópsk lönd myndu verða illa fyrir barðinu á hitanum og landbúnaðarframleiðsla minnka þar um allt að 25% og túristar sem annars gæfu af sér fimm milljarða tekjur þar myndu fara annað.

Um miðbik álfunnar, á norður-suður skalanum, yrði minna tjón vegna hitans en þar yrðu flóð mun algengari. Ferðaþjónusta myndi hins vegar hagnast. Að sögn höfundanna yrðu hin jákvæðu áhrif svo enn meiri eftir því sem norðar væri farið í álfunni, t.d. á Norðurlöndum.

Norður-Evrópa er eina svæðið sem myndi hagnast á þessu í heildina, aðallega vegna jákvæðra áhrif á landbúnað, segir í skýrslunni. Einnig yrði ferðaþjónusta meiri þar. Landsframleiðsla í þeim löndum gæti aukist um 0,5-0,7% bara út af hlýnuninni.

Höfundarnir taka þó fram að hitaaukningin gæti orðið meiri en gert er ráð fyrir og að allir myndu því tapa á henni, sama hvar þeir búa. Einnig lögðu þeir áherslu á að rannsóknin taki ekki til minnkunar á líffræðilegum fjölbreytileika og annarra þátta sem ekki verða metnir á peningalegum mælikvarða.

mbl.is