Úlfar ekki á lista yfir dýr í útrýmingarhættu

Úlfum var nánast útrýmt í N-Ameríku á fyrri hluta síðustu …
Úlfum var nánast útrýmt í N-Ameríku á fyrri hluta síðustu aldar.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa samþykkt að heimila Wyoming-ríki að fella úlfa út af lista yfir dýr í útrýmingarhættu. Umhverfissamtök mótmæla þessari ákvörðun og hóta að leggja málið fyrir dómstóla til að fá ákvörðuninni breytt.

Litlu munaði að úlfum væri útrýmt í N-Ameríku á fyrri hluta síðustu aldar, en talið er að um tvær milljónir villtra úlfa hafi verið í álfunni þegar mest var.

Um 1990 var 14 úlfum frá Kanada sleppt í Yellowstone þjóðgarðinn og þeim fjölgaði hratt. Nú eru taldir vera um 270 úlfar í garðinum.

Samkvæmt nýju reglunum er heimilt að drepa úlfa en þó ber Wyoming að sjá til þess að það séu ávalt til a.m.k. 10 pör með hvolpa og ekki færri en 100 úlfar samtals.

Bændur í ríkinu hafa lengi haldið því fram að úlfar drepi búfé og því sé rétt að takmarka fjölda dýranna.

Í frétt BBC segir að um 1.100 úlfar séu í Montana og Idaho og fleiri í Washington og Oregon.

mbl.is