Biðjum um byltingu og brunum af stað

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslenska þjóðin er tilbúin að nýta tækni í samskiptum við opinbera aðila og þó svo innviðirnir séu til staðar sitja stofnanir ríkis og sveitarfélaga eftir og nýta ekki tæknina sem skyldi - nýta ekki þau tækifæri sem við blasa. Þetta sagði innanríkisráðherra á ráðstefnu um lýðræði á 21. öld.

Ráðstefnan sem var um eflingu lýðræðis á Íslandi fór fram í gær og stóðu að henni innanríkisráðuneytið ásamt Reykjavíkurborg, lýðræðisfélaginu Öldu og Umboðsmanni barna.

Ögmundur Jónason innanríkisráðherra hélt þar ræðu og sagði að á Íslandi væru allar forsendur fyrir því að nýta tæknina í þágu opinnar, gagnsærrar stjórnsýslu og lýðræðis. „Þannig býður Internetið upp á meiri og skjótari upplýsingar til íbúanna og má hæglega nýta það á gagnvirkan máta til þess að hafa íbúana með í ráðum við ákvarðanatöku. Það er athyglisvert að þegar litið er til fjarskiptainnviða, tölvueignar, aðgengis að Interneti og tölvulæsis eru Íslendingar í hópi fremstu þjóða heims – ef marka má alþjóðlegar kannanir sem gerðar eru reglulega.“

Hann bætti við að þjóðin sjálf væri í hópi fremstu þjóða varðandi upplýsingatæknina því hún væri tilbúin að nota sér hana til gagns og gamans. „Alþjóðlegar kannanir sýna, svo ekki verður um villst, að Íslendingar eru í hópi þeirra þjóða sem nota mest þá þjónustu sem er í boði á netinu, hvort sem um er að ræða þjónustu opinberra aðila eða fyrirtækja. Sem dæmi má nefna að netnotendur hafa undanfarin ár mælst flestir á Íslandi og Noregi af öllum ríkjum innan hins Evrópska efnahagssvæðis.“

Á svipuðum stað og Burkina Faso

Hins vegar sé annað uppi á teningnum þegar litið er á framboð þjónustu á netinu. „Í könnunum sem gerðar hafa verið á síðustu árum hefur komið í ljós að á Íslandi er framboð á opinberri netþjónustu með því minnsta sem gerist í Evrópu. Þá hafa Sameinuðu þjóðirnar gert kannanir sem snúa beint að umræðuefni dagsins í dag því þær hafa mótað svokallaða rafræna þátttökuvísitölu. Á árinu 2010 var Ísland í 135. sæti meðal þjóða heims í slíkri könnun en í  könnuninni 2012 hafði staðan batnað nokkuð því þá var Ísland í 84. sæti af 193. Á svipuðum stað eru Burkina Faso, Paraguay, Suður-Afríka, Úkraína og Andorra.“

Ögmundur segir að séu allar þessar upplýsingar skoðaðar í samhengi megi sjá að þjóðin sé tilbúin að nýta sér tæknina, innviðir séu til staðar en stofnanir ríkis og sveitarfélaga sitja eftir. „Úr þessu þarf augljóslega að bæta þó ekki væri nema til að ná aukinni hagræðingu fyrir almenning og hið opinbera.“

Hann lauk ræðu sinni á að vitna í lag Jons Lennon, Power to the people:

„Say you want a revolution
We better get on right away

eða

Við biðjum um byltingu
og brunum af stað“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert