1.500 ára gamall mosi lifnaði við

Mörgæsir á Suðurskautslandinu.
Mörgæsir á Suðurskautslandinu. Wikipedia

Mosi, sem verið hefur frosinn í 1.500 ár á Suðurskautslandinu, hefur lifnað við á nýjan leik samkvæmt frétt AFP. Vísað er í niðurstöður rannsókna sem birtar eru í vísindaritinu Current Biology. Þar segi að þetta sé í fyrsta sinn sem sýnt hafi verið fram á að mosi hafi lifað af í svo langan tíma.

Fyrri rannsóknir sýndu að hægt væri að lífga mosa við eftir að hann hafi verið frosinn í 20 ár. Bakteríur eru eina lífsformið sem vitað hefur verið um að gæti lifað af frosið í þúsundir og jafnvel milljónir ára. Mosinn var tekinn frosinn á Suðurskautslandinu og komið fyrir í hitakassa við hitastig sem var til þess fallið að ýta undir vöxt við venjulegar aðstæður. Mosinn fór að vaxa innan fárra vikna. Kolefnarannsókn sýndi að upphaflega plantan var í það minnsta 1.530 ára gömul.

Haft er eftir breska vísindamanninum Peter Convey að þótt það væri stórt skref frá núverandi rannsóknarniðurstöðum þá bendi þær engu að síður til þess að mögulegt kunni að vera að flóknari lífsform gætu mögulega lifað af í lengri tíma frosin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert