Gægist bak við Vetrarbrautina

Vista-kortlagningarsjónaukinn svipti hulunni af sveiflustjörnum handan Vetrarbrautarinnar með því að …
Vista-kortlagningarsjónaukinn svipti hulunni af sveiflustjörnum handan Vetrarbrautarinnar með því að nema innrautt ljós. ESO/VVV consortium/D. Minnit

Rykið í Vetrarbrautinni okkar byrgir mönnum sýn þegar þeir vilja rannsaka fyrirbæri sem er á bak við miðflöt hennar. Með því að nota innrautt ljós hefur VISTA-sjónauka evrópsku stjörnustöðvarinnar á Suðurhveli (ESO) tekist að finna fyrstu sveiflustjörnurnar í miðfleti Vetrarbrautarinnar, nánast beint fyrir aftan hana.

Sveiflustjörnur eru tegund svonefndar breytistjarna. Það eru stjörnur sem breyta birtu sinni, ýmist reglulega eða óreglulega, að því er segir á Stjörnufræðivefnum. Sveiflustjörnur þenjast út og dragast saman vegna sveiflna í orkuflæði úr innviðum þeirra. Við það breytist birta stjarnanna. Mikilvægustu sveiflustjörnurnar eru sefítar en það eru mjög bjartar risastjörnur sem sjást langt að. 

Á meðfylgjandi mynd sem tekin var með VISTA-kortlagningarsjónauka ESO sést hin fræga Þríklofnaþoka í nýju og draugalegu ljósi. Hún er stjörnumyndunarsvæði og gengur einnig undir nafninu Messier 20. Nafnið Þríklofnaþokan er tilkomið vegna dökkra rykslæða sem kljúfa hana í þrennt séð í gegnum sjónauka, að því er kemur fram í frétt á vef ESO

Sú kunnuglega mynd sem margir hafa af Þríklofnuþokunni í sýnilegu ljósi, þar sem bleikglóandi vetni og bláleit ljósmóða frá ungum og heitum stjörnum blasa við, er hvergi sýnileg á þessari mynd VISTA. Þokan er skugginn af sjálfri sér. Rykskýin eru næsta ógreinileg og bjartur bjarmi vetnisskýjanna kemur vart fram. Þríklofnaformið er hvergi sjáanlegt.

Víðmyndin er hins vegar stórglæsileg. Þykk rykskýin í vetrarbrautarskífunni sem gleypa sýnilegt ljós, hleypa í gegn mestum hluta innrauða ljóssins sem VISTA nemur. Í stað þess að rykið byrgi okkur sýn sér VISTA í gegnum það, langt út fyrir Þríklofnuþokuna og kemur auga á fyrirbæri hinu megin í Vetrarbrautinni sem við höfum aldrei séð áður.

Skammt frá á himninum en sjö sinnum lengra í burtu

Myndin er gott dæmi um hið óvænta sem sést þegar innrauðar ljósmyndir eru teknar. Skammt frá Þríklofnuþokunni á himninum, en í raun sjö sinnum lengra í burtu, fannst par sveiflustjarna í gögnum VISTA af gerð sefíta. Stjörnufræðingar telja að stjörnurnar tvær sé þær björtustu í stjörnuþyrpingu en þær eru einu sefítarnir sem hafa fundist þetta nálægt miðfleti og á fjærhlið Vetrarbrautarinnar. Stjörnurnar breyta birtu sinni á 11 dögum.

Kortlagning á miðsvæðum Vetrarbrautarinnar í innrauðu ljósi í leit að nýja og huldum fyrirbærum er eitt stærsta verkefni VISTA sjónaukans í Paranal-stjörnustöð ESO í Chile. Í verkefninu, sem kallast VVV (skammstöfun fyrir VISTA Variables in the Via Lactea), eru sum svæði skoðuð oftar en einu sinni í leit að fyrlrbærum sem breyta birtu sinni lotubundið.

Hér má sjá myndskeið sem sýnir muninn á myndum af Þríklofnuþokunni sem teknar voru í sýnilegu og innrauðu ljósi.

mbl.is