Sjöfalda spennuna og þrefalda aflið

Við afhjúpun TS15 á Háskólatorgi í dag.
Við afhjúpun TS15 á Háskólatorgi í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í dag afhjúpuðu verkfræðinemar við Háskóla Íslands TS15, nýjan kappakstursbíl. Team Spark liðið, eins og það kallast, fer með bílinn nýja í alþjóðlegu kappaksturs- og hönnunarkeppnina Formula Student sem haldin verður á Silverstone-kappakstursbrautinni í Englandi í júlí.  Lið Háskóla Íslands vann einmitt til verðlauna á brautinni í fyrra.

Samkvæmt tilkynningu frá Háskóla Íslands hafa lið frá skólanum tekið þátt í keppninni undanfarin fjögur ár en þetta verður í annað sinn sem þau mæta með fullbúinn bíl. Rúmlega hundrað lið frá háskólum víða um heim hafa tekið þátt í keppninni á Silverstone undanfarin ár en keppt er í tveimur flokkum. Í flokki 1 eru lið dæmd út frá bæði hönnun einstakra hluta bílsins og akstri hans á kappakstursbraut en í flokki 2 eru aðeins hönnun og áætlanir kynntar en ekki keppt í kappakstri. Team Spark keppir í flokki 1 í ár líkt og í fyrra en þá hlaut liðið flest stig allra liða fyrir endurnýjanleika bíls og sérstök verðlaun sem bestu nýliðar í sínum flokki.

Þriðjungi léttari en í fyrra

„Helsti munurinn  á þessum bíl og bílnum í fyrra er að þá bjuggum við til bíl sem myndi keyra. Núna erum við að gera bíl sem keyrir og er samkeppnishæfur bestu tækniháskólum í heimi. Þrjú helstu markmið okkar var að létta bílinn um þriðjung, sjöfalda spennuna og þrefalda aflið,“ segir Aðalheiður Guðjónsdóttir, liðstjóri Team Spark í samtali við mbl.is.

„Þetta eru þessar þrjár stóru tölur sem við erum að reyna að breyta síðan í fyrra. Þetta er geigvænleg breyting ef við berum  saman bílana tvo,“ segir Aðalheiður. Kappakstursbíll Team Spark var rúm þrjúhundruð kíló í fyrra. Markmiðið í ár er að bíllinn sé þriðjungi léttari, eða um 200 kíló.

„Við höfum líka algerlega skipt út rafhlöðunni og fórum úr tveimur frekar klossuðum mótórum í einn nettan. Þetta eru stórar breytingar sem valda breytingunni í afli og spennu bílsins,“ segir Aðalheiður.

Til þess að létta bílinn um hundrað kíló þarf að létta hvern einasta íhlut bílsins eins mikið og hægt er. „Við losuðum þrjátíu rör í grindinni en þau voru áður rúmlega 100,“ segir Aðalheiður. „Hver einasti íhlutur er léttari og efnisminni en í fyrra. Til dæmis er skelin helmingi léttari, hún var 9 kíló en er nú 4,5 kíló.“

Bæta 100% vinnu ofan á 100% nám

Tæplega 40 nemendur í verkfræðideildum Háskóla Íslands hafa unnið að þróun og smíði kappakstursbílsins síðan í haust. Var það m.a. gert í samstarfi við nemendur úr Listaháskóla Íslands. Að baki bílnum liggja mörg þúsund vinnustundir og er liðið staðráðið í að fylgja eftir góðum árangri í kappaksturs- og hönnunarkeppninni á síðasta ári, en þá hlaut Team Spark sérstaka viðurkenningu sem bestu nýliðarnir.

Aðalheiður segir mikla vinnu að baki gerðar kappakstursbílsins. „Við erum flest að taka þetta með 100% námi og því mikið að gera hjá öllum. Þetta er metið í rauninni sem hálft valfag þannig við fáum nokkrar einingar fyrir þetta. En flestir eru þá að bæta 100% vinnu ofan á 100% nám.“

Af 39 sem standa að gerð bílsins fara 33 út til þess að vera við Formula Student. Aðalheiður segir að það sé góður andi í hópnum. „Í  fyrra var okkur hrósað fyrir liðsheildina. Bæði dómarar og aðstandendur annarra liða hrósuðu íslenska liðinu í fyrra fyrir samheldni og liðsheild og sú liðsheild sést vel á því hversu margir fara út í ár.“

mbl.is
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...
Til sölu 16" álfelgur og snjódekk
Felgurnar eru original Mitsubishi 16", gatadeiling 108x5. Dekkin eru Firestone ...
Bækur um ættfræði, byggðasögu og ýmsan fróðleik til sölu
Til sölu nokkur grundavallarrit ættfræðinnar ásamt ritum um atvinnu- og byggðasö...
Kolaportið sjávarmegin-plötuportið.
Mikið úrval af ýmsum gömlum plötum Low, Pinups, Diamond Dogs, Aladin Sane, o.f...