Stærðfræðiþraut veldur hugarangri

Stærðfræðiþrautin góða
Stærðfræðiþrautin góða Af Facebooksíðu SOSMA

Stærðfræðiþraut sem lögð var fram í prófi ungmenna í Singapúr hefur valdið ýmsum hugarangri á ferð sinni um netheima. Fjölmargir hafa reynt við þrautina með misjöfnum árangri.

Í prófspurningunni, sem lögð var fyrir 15 og 16 ára gamla nemendur í skóla í Singapúr, eru tveir piltar spurðir um afmælisdag stúlku. Tekið skal fram að prófið var lagt fyrir afburðanemendur sem sækjast eftir því að taka þátt í ólympíuleikum í stærðfræði fyrir asíska námsmenn.

Í þrautinni gefur Cheryl piltunum, Albert og Bernard, upp tíu mögulega afmælisdaga auk þess sem hún gefur þeim hvorum um sig vísbendingar aukalega. Námsmennirnir þurfa síðan að beita rökfræði til þess að álykta um hvaða dag Cheryl á afmælið. Einu vísbendingarnar eru stuttar samræður milli drengjanna varðandi upplýsingar sem Cheryl gaf þeim.

Í gær eyddu margir deginum við að reyna að leysa þrautina en aðrir reyttu af sér brandara varðandi þrautina. Á Facebook, Reddit og Twitter mátti lesa ummæli eins og: Cheryl vildi greinilega ekki að Albert og Bernard kæmu í afmælið. Þeir hefðu átt að skilja skilaboðin þegar Cheryl ákvað að búa til þennan samkvæmisleik.

Bæði Guardian og Buzzfeed hafa birt þrautina og greinar henni fylgjandi. 
En í gærkvöldi birti Singapore and Asian School Math Olympiads (SOSMA) þrautina og svarið og er hægt að nálgast hér.

Ef þið eruð við það að gefast upp þá er lykillinn að lausninni hér

mbl.is