Vilja fá að fikta í erfðaefninu

Af vef Wikipedia.
Af vef Wikipedia. Mynd/Zephyris

Breskir vísindamenn hafa sótt um leyfi til að breyta erfðaefni mannsfóstra, en um er að ræða þátt í rannsókn á fyrstu þroskastigum mannsins. Aðeins nokkrir mánuðir eru liðnir frá því að kínverskir vísindamenn urðu fyrstir í heiminum til að breyta í erfðaefni mannsfóstra en gjörningurinn er afar umdeildur.

Kathy Niakan, sérfræðingur í stofnfrumurannsóknum við Francis Crick Institute í Lundúnum, hefur biðlað til yfirvalda um heimild til að gera breytingar á erfðamengi fóstra. Í rannsókninni er notast við umframfóstur sem falla til eftir frjósemismeðferðir, en rannsóknir á þeim mega ekki standa lengur en í tvær vikur né mega þau verða að börnum.

Hugmyndin um að breyta erfðaefni mannsins er afar umdeild og margir hafa kallað eftir alþjóðasáttmála gegn erfðafikti, jafnvel í þágu rannsókna.

Niakan vill nota aðferðina til að bera kennsl á þau gen sem koma við sögu fyrstu dagana eftir getnað, þegar fóstrið myndar hjúp fruma sem seinna verða að fylgju. Athuganirnar gætu varpað ljósi á ástæður fósturmissis.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert