1. janúar 1970 eyðileggur tækið þitt

Fjölmargir forvitnir notendur hafa neyðst til að skila tækjum sínum …
Fjölmargir forvitnir notendur hafa neyðst til að skila tækjum sínum til Apple. AFP

Ef dagsetning iPhone- eða iPad-tækisins þíns er stillt á 1. janúar 1970 þá nær tækið ómögulega að kveikja sér aftur eftir að á því hefur verið slökkt.

Uppgötvast hefur tæknigalli innan tímastillingarkerfis iOS stýrikerfis Apple, sem veldur því að ekki er hægt að kveikja á tækjum eftir að dagsetning þeirra hefur verið stillt á 1. janúar 1970, jafnvel þótt reynt sé að endurræsa tækið með hjálp tengingar við iTunes í tölvu.

Gallinn getur hrjáð alla iPhone-síma, iPod Touch og iPad-tæki sem keyra iOS 8 eða iOS 9 á 64 bita örgjörvum. Þessi listi inniheldur iPhone síma af gerð 5S eða nýrri, iPad Air, iPad mini 2 og 2015 árgerð af iPod Touch tækjunum.

Krefst þolinmæði að breyta dagsetningunni

Nákvæmlega hvað veldur gallanum hefur ekki enn fengið staðfest. Kunnugir telja þó að aðferðin sem iOS notast við til að geyma tímastillingar hefur dagsetninguna 1. janúar 1970 geymda sem núllgildi eða þá gildi sem er minna en núll. Myndi það valda því að öll kerfi sem sjálfkrafa leitast við að nota tímastillinguna, hætta um leið að virka.

Það krefst talsverðrar þolinmæði að snúa dagsetningunni svo langt til baka þar sem lengi þarf að skruna aftur, vista stillinguna og skruna svo ennþá meira. Notendur eru þannig alls ekki líklegir til að gera það ósjálfrátt, en hrekkjalómar eru þó byrjaðir að herja á tæki sem til sýnis eru í Apple verslunum. Fjölmargir forvitnir notendur hafa þá neyðst til að skila tækjum sínum til Apple og fengið önnur í staðinn eftir að hafa reynt stillinguna sjálfir.

The Guardian fjallar um gallann.

mbl.is