Eins og að bæta við öðrum Bandaríkjum

Tjarnir í sífrera við Hudson-flóa í Kanada. Mikið magn kolefnis ...
Tjarnir í sífrera við Hudson-flóa í Kanada. Mikið magn kolefnis gæti losnað úr jörðu á norðlægum slóðum með hlýnun loftslags. ljósmynd/Steve Jurvetson/Wikipedia

Ef hnattræn hlýnun heldur áfram óhindruð gæti það leitt til mikillar losunar kolefnis úr jarðvegi sem jafnaðist á við það að bæta við nýju landi með losun á við Bandaríkin, annan stærsta losara heimsins á gróðurhúsalofttegundum. Það gæti rústað markmiðum manna um að takmarka hlýnun.

Vísindamenn hafa lengi óttast svonefnda jákvæða svörun (e. positive feedback) í þeim loftslagsbreytingum sem nú eiga sér stað á jörðinni vegna losunnar manna á gróðurhúsalofttegundum. Það er þegar breyting magnar upp áhrifin sem valda þeim sem leiðir til enn meiri breytinga.

Eitt helsta dæmið um það er að hlýnunin á norðlægum slóðum vegna aukins styrks gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum geti valdið því að mikið magns metans sem bundið er í freðmýrum þar losni út í andrúmsloftið og valdi enn meiri hlýnun. Þannig stuðli þessi jákvæða svörun að óafturkræfum loftslagsbreytingum um langa framtíð.

Ný rannsókn þar sem teknar eru saman niðurstöður 49 rannsókna yfir tuttugu ára tímabil á losun frá jarðvegi í Norður-Ameríku, Evrópu og Asíu leiðir í ljós að ef hnattræn hlýnun heldur áfram þá muni það valda aukinni losun kolefnis úr jarðvegi. Hún geti numið 55 milljörðum tonna af kolefni, um 17% af losun allra þjóða heims fram til 2050.

„Þetta er af sömu stærðargráðu og að bæta öðrum Bandaríkjum við jörðina,“ segir Thomas Crowther frá Hollensku vistfræðistofnunina sem leiddi rannsóknina við Washington Post. Grein um niðurstöðurnar birtist í vísindaritinu Nature í gær.

Köldu svæðin losa mest

Fram að þessu hefur veruleg óvissa verið talin ríkja um áhrif hnattrænnar hlýnunar á losun og upptöku jarðvegs á kolefni. Rannsóknir á sumum stöðum benda til þess að jarðvegurinn bindi meira kolefni vegna aukins vaxtar plantna með meiri styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu en annars staðar aukist losunin, sérstaklega á norðlægum slóðum þar sem mikið magn kolefnis er bundið í jörðu.

Vegna þessarar óvissu hafa þessir þættir ekki verið teknar inn í áætlanir loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) um losun gróðurhúsalofttegunda, að því er kemur fram í umfjöllun Washington Post.

Það er þessi óvissa sem rannsókn Crowther og fjölda annarra vísindamanna reynir að draga úr. Niðurstaða þeirra byggist á rannsóknum frá ólíkum stöðum sem sumir sýna aukna bindingu en aðrir aukna losun. Mesta losunin á sér stað samkvæmt þeim á norðlægum breiddargráðum þar sem loftslag hlýnar hraðast.

Hlýnun og aukinn styrkur CO2 í andrúmsloftinu gætu leitt til ...
Hlýnun og aukinn styrkur CO2 í andrúmsloftinu gætu leitt til meiri bindingar í plöntum sums staðar en vísindamenn telja að heildaráhrifin leiði til meiri losunar frá jarðvegi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Mest kolefni er bundið í jörðu á norðurskautinu og kaldtempraða beltinu í köldum og frosnum jarðveginum, að sögn Crowther. Örverur sem brjóta niður lífræn efni og losa koltvísýring eru ekki eins virkar þar og á suðlægari slóðum og því hefur kolefni getað safnast saman þar í margar aldir.

„En þegar hlýnunin byrjar þá eykst virkni þessara örvera og þá fer losunin af stað. Það sem er ógnverkjandi er að þessi köldu svæði eru þeir staðir sem búist er við að hlýni mest með loftslagsbreytingum,“ er haft eftir Crowther í frétt á vefsíðu Yale-háskóla.

Með því að framreikna niðurstöðurnar fyrir alla jörðina komust vísindamennirnir að þeirri niðurstöðu að hlýnun jarðar muni leiða til þessarar miklu aukningar í losun kolefnis frá jarðvegi.

Crowther segir hins vegar einnig við Washington Post að þó að við rannsóknina hafi verið tekið tillit til freðmýranna á norðurskautinu þá hafi hún fyrst og fremst beinst að efri lögum jarðvegarins. Ef hlýnunin leiði til þess að metan losni úr dýpri lögum sífrerans þá séu losunartölurnar vanáætlaðar.

Óvissa enn til staðar

Rannsóknin er hins vegar ekki gallalaus. Charles Rice, jarðvegsörverufræðingur við Ríkisháskólann í Kansas, bendir meðal annars á að upplýsingar vanti um vistkerfi í hitabeltinu og hvernig þau bregðist við hlýnuninni. Svæði á norðlægum breiddargráðum séu þó sérlega viðkvæm og geti losað mikið magn kolefnis út í lofthjúpinn.

Vísindamennirnir sjálfir viðurkenna að veruleg óvissa sé enn til staðar. Allar niðurstöður fram að þessu bendi hins vegar í sömu átt, að hrein losun frá jarðvegi muni aukast með meiri hlýnun. Sterkar vísbendingar styðji þá kenningu að vaxandi hitastig muni keyra áfram jákvæða svörun kolefnis úr jarðvegi sem gæti hraðað á loftslagsbreytingum.

Þannig spá vísindamennirnir því að fyrir hverja eina gráðu á selsíus sem meðalhiti jarðar hækkar losni um 30.000 milljarðar af kolefni úr jarðveginum. Það er um tvöfalt meira en menn losa af gróðurhúsalofttegundum á einu ári. Spár gera ráð fyrir að miðað við núverandi losun fari hnattræn hlýnun vel fram yfir markmið Parísarsamkomulagsins um 2°C fyrir lok þessarar aldar.

Umfjöllun Washington Post

Greinin um rannsóknina í Nature

Frétt á vef Yale-háskóla um rannsóknina

mbl.is
Húsaviðgerðir
https://www.husco.is/...
dönsk antik innskotsborð sími 869-2798
dönsk antik innskotsborðinnlögð með rósamunstri í toppástandi á 35,000 kr sími...
JEMA Bílalyftur í bílskúrinn
Frábærar skæralyftur sem henta í bílskúrinn,lyfta 1,2 m og 2,8T, glussadrifnar...
Klettar - Heilsárshús - 80fm + 49fm svefnloft
Splunkunýtt! Klettar - Heilsárshús Klettar er heilsárshús sem flestir ættu að...