Hitabylgja á Norðurpólnum

Hitastigið á norðurpólnum í kvöld gæti orðið við frostmark.
Hitastigið á norðurpólnum í kvöld gæti orðið við frostmark. Skjáskot/Háskólinn í Maine

Hitastigið á Norðurpólnum í kvöld gæti orðið tuttugu gráðum hærra en að meðaltali á þessum degi. Vísindamenn segja að um met sé að ræða og kalla ástandið á pólnum hitabylgju.

Loftslagssérfræðingar segja að þessi óvenjulegu hlýindi á norðurheimskautinu séu vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum.

Hitastigið á svæðinu í nóvember og desember hefur verið 5 gráðum heitara en meðaltal síðustu ára. 

Friederike Otto, vísindamaður við loftslagsstofnun Oxford, segir í samtali við BBC, að fyrir iðnbyltingu hefði hitabylgja sem þessi verið einstaklega fágæt. „Þá hefðum við búist við að hún yrði á um þúsund ára fresti,“ segir hann. 

Hann segir að vísindamenn séu sannfærðir um að þetta breytta veðurfar skýrist af loftslagsbreytingum af mannavöldum. Hann segir að sama hvaða líkönum sé beitt, slíkar breytingar á veðri sé ekki hægt að skýra með öðrum hætti.

Í kvöld er talið að hitastig á norðurpólnum verði í kringum frostmark. Því er spáð að hlýtt loft frá Norður-Atlantshafi muni streyma alla leið að pólnum. Vegna skýjafars sem fylgi muni hlýtt loft ekki geta sloppið frá jörðu.

Thorsten Markus, yfirmaður loftslagsmála hjá Nasa, segir að hitabylgjan á norðurpólnum sé „mjög, mjög óvenjuleg.“

Spurður hvort að veðrið í kvöld muni hefta för jólasveinsins segist hann sannfærður um að sleði hans ráði við aðstæðurnar. „Jólasveinninn er samt líklega í of hlýjum fötum. Kannski við sjáum hann í framtíðinni í þynnri jakka.“

Hér að neðan getur þú séð hitastigið á norðurheimskautinu og þróun þess næstu klukkustundir.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert