Áhætta samfara skjánotkun ungra barna

Móðir og barn leika á spjaldtölvu í verslun Apple í …
Móðir og barn leika á spjaldtölvu í verslun Apple í Sjanghæ. Steiner-Adair segir börn ekki ná að þroska öll skynsvæði heilans ef leikur þeirra fer að mestu leiti fram í tölvu. AFP

Hvorki snjallsíminn né spjaldölvan eru heppileg leiktæki fyrir börn undir sex ár aldri, því of mikil skjánotkun getur hindrað börn í að öðlast fullan þroska, segir bandaríski sálfræðingurinn dr. Catherine Steiner-Adair. Leikur í raunheimum er hins vegar besta leiðin fyrir að börn til að þroska öll skynsvæði heilans, en sé það ekki gert fyrir vissan aldur þá er engin leið að spóla til baka. Fullyrðingar um að börn nái ekki fullu valdi á tækninni ef þau kynnast ekki skjáumhverfinu ung eru hins vegar alrangar.

„Það er mikilvægt fyrir börn, sérstaklega börn undir sex ára aldri, að þroska öll skynsvæði heilans með því að taka að fullu þátt í heiminum í kringum okkur,“ segir Steiner-Adair. Hún er meðal fyrirlesara á ráðstefnunni Börn, skjátími og þráðlaus örbylgjugeislun sem Félag foreldra leikskólabarna stendur fyrir á Hótel Natura í dag. 

Bók hennar „The Big Disconnect: Protecting Childhood and Family Relationships in the Digital Age“ hefur hlotið mikið lof, en Steiner-Adair sem flytur fyrirlestur sinn í gegnum Skype segir mikla skjánotkun þeirra kynslóða barna sem nú eru að vaxa úr grasi hindra þroska þeirra að mörgu leiti.

Ekki hægt að endurræsa taugaþróun, sjálfstjórn eða samkennd

„Það er nákvæmlega ekkert sem barn getur ekki lært við lok grunnskóla til að ná í skottið á tækninni. Áhættan sem felst í því að nota skjáumhverfi við kennslu barna, sérstaklega undir sex ára aldri, er hins vegar veruleg,“ segir Steiner-Adair í samtali við mbl.is. „Það er ekki hægt að spóla til baka og endurræsa taugaþróun, sjálfstjórn, samkennd, samhæfingu hvort sem hún er líkamleg eða snýr að hreyfiskynjun,“ segir hún og bætir við að það sama eigi við um hæfnina til að takast á við vonbrigði eða hæfileika barna fyrir djúpan leik (e. deep play).

Mikið sé hins vegar um rangar upplýsingar um það hversu mikilvægt sé fyrir börn að byrja að nota tæknina snemma og hinir eða þessir leikir ranglega sagðir vera fræðandi.

Dr. Catherine Steiner-Adair segir snjallsíma og skjátölvur ekki vera heppileg …
Dr. Catherine Steiner-Adair segir snjallsíma og skjátölvur ekki vera heppileg leiktæki fyrir börn undir sex ár aldri. Ljósmynd/Catherine Steiner-Adair

Situr í stól og notar vísifingurinn

Steiner-Adair nefnir einn viðmælanda sinn, hina 6 ára gömlu Alishu sem dæmi. Uppáhaldsleikur Alishu eftir skóla væri fataleikur (e. dress up), sem ekki færi hins vegar fram í raunheimum heldur í spjaldtölvunni. „Alisha spurði mig hvort ég vissi hvernig ætti að leika hann og ég sagði nei. Maður klikkar svaraði hún. Maður klikkar hvort maður vill rauða kórónu eða rautt hárband. Maður klikkar hvort maður vilji að hárbandið glitri eða sé matt. Síðan klikkar maður aftur til að velja rauða strigaskó í stíl eða græna skó,“ sagði Steiner-Adair og kveður myndina nokkuð skýra.

„Þetta grefur virkilega undan því sem sex ára börn þurfa að vera að gera og hvernig þau læra. Þessi stúlka er ekki í fataleik. Hún er í tölvuleik sem líkir eftir fataleik. Hún situr á stól og notar vísifingurinn.“ Fataleikur í raunheimum sé hins vegar með betri leikjum fyrir börn til að öðlast líkamlegan þroska. „Hann hjálpar þeim að þróa með sér fínhreyfingar og jafnvægi. Þau hneppa tölum, ganga í hælaskóm eða stígvélum sem eru of stór fyrir þau, beygja sig niður, taka upp föt og klæða sig í. Þetta felur allt í sér mikla samhæfingu.“ 

Börnum sem þurfa aðstoð iðjuþjálfa fjölgar

Steiner-Adair segir verulegrar aukningar hafa orðið vart í Bandaríkjunum á undanförnu á þeim fjölda 5-7 ára barna sem þurfa á iðjuþjálfun að halda þegar þau hefja skólagöngu. „Börn þróa ekki með sér næga samhæfingu með því að spila fótbolta um helgar, hvað þá við leik í ipadinum.“

Þess utan séu þær hugmyndirnar sem börn komi sjálf upp með við fataleik mun áhugaverðari en staðlaðar og kynjaskiptu möguleikarnir sem tölvuleikurinn býður þeim upp á. „Þegar 4-6 ára barn er í fataleik þá er það í skapandi leik, því fataleikurinn er söguleikur, en þegar slíkur leikur er spilaður á ipadinum þá er það spjaldtölvan sem sér um að segja söguna.“ 

Mikilvægt að láta sér leiðast

Þess utan læri börn teymisvinnu, að deila hlutum og að láta sér lynda við aðra með því að leika sér saman í leikjum á borð við fataleikinn. „Maður lærir ekki að láta sér lynda við aðra í ipadinum,“ segir hún.

Djúpur leikur (e. deep play) er hugtak sem notað er innan kennslufræðanna og á við hæfni barna til að kafa niður í eigin hugarfylgsni eftir nýjum hugmyndum að leik. Þetta sé hæfni sem börn þrói til dæmis með sér þegar þeim leiðist stuttlega. „Raunverulega er þetta óróleiki sem fylgir því að vita ekki alveg hvað maður á að gera næst, áður en næsta hugmynd kviknar,“ segir Steiner-Adair. Djúpur leikur sé mikilvægur fyrir sköpunargleði, nýsköpun og til að börn læri að treysta eigin huga, hugmyndum og hugaflugi með því að að kafa djúpt.

„Leyfi maður hins vega töfrum ipadsins að koma í staðinn fyrir töfrana sem fylgja því að leika sér úti við eða heima, þá fara þau á mis við mikilvægan vitsmunalegan, félagslegan og líkamlegan þroska, sem og samskipta- og taugaþroska.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert