Geta vaktað vá með ljósnæmum myndum

Mynd frá 21.01.2018 klukkan 04:12 um nótt. Tunglskin er dauft …
Mynd frá 21.01.2018 klukkan 04:12 um nótt. Tunglskin er dauft og þar með er auðveldara að greina rafljós frá umhverfinu. Þarna er t.d. hægt að sjá ljós í fjallaskálum og einnig frá skipum á miðunum. Þéttbýlisstaðir sjást mjög vel, þó ekki sé hægt að greina á milli húsa. Ljós frá gróðurhúsahverfum koma einnig vel fram. Það er nánast hægt að sjá hvar byggðin er á landinu. Norðan við landið er norðurljósa "bjarma-band" en myndirnar nýtast einmitt vel til að greina norðurljós. Aðsend mynd/NASA & DSRS

Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands birti í fyrradag á Facebook-síðu sinni ljósnæma mynd af Íslandi sem tekin var af NASA með VIIRS-skannanum um borð í SUOMI NPP-gervitunglum. Margvíslegar mælingar eru gerðar um borð í gervitunglunum til að vakta og rannsaka umhverfið en tunglið var sent á braut um jörðu árið 2011.

Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, segir í samtali við mbl.is að hægt vegna ljósnæmni myndanna sé hægt að greina á þeim ljós skipa út á sjó, fjallaskála o.fl. en ekki er hægt að greina á milli húsa í bænum. Þá koma gróðurhús sterkt fram á myndunum og er skýr munur á myndum eftir því hversu sterkt tunglsljósið er.

Líkt og má sjá á myndinni hér að neðan er tunglsljósið sterkt og greinir myndin því ekki eins vel á milli ljósa.

Mynd frá 9. desember 2017 klukkan 04:19 um nótt. Tunglskinið …
Mynd frá 9. desember 2017 klukkan 04:19 um nótt. Tunglskinið var mjög bjart og það sést vel hvaða svæði eru hulin snjó og hver ekki, því snjór endurvarpar ljósi mjög vel. Hafísinn sést einnig norðan við landið. Hægt er að greina á milli skýjategunda í mismunandi hæð. Tunglskinið er nógu bjart til að varpa skuggum á landið. Það sést að Öskjuvatn er enn ólagt, en það fraus daginn eftir. Helstu þéttbýlisstaðir sjást mjög vel. Aðsend mynd/NASA & DSRS

„Tilgangurinn hjá okkur er að vera vel undirbúin gagnvart náttúruvá og rannsaka umhverfisbreytingar,“ segir Ingibjörg og nefnir sem dæmi að myndirnar kunni að koma að góðum notum næst þegar fer að gjósa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert