Biblían komin á íslensku í snjallforriti

Biblían á íslensku var gerð aðgengileg í liðinni viku á Biblíusnjallforritinu The Bible App sem YouVersion stendur að.

„Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð við forritinu.

Við vissum af þörfinni fyrir Biblíuna á íslensku í snjallforiti og Biblíufélagið hafði samband við YouVersion um útgáfu hennar á íslensku á netinu,“ segir Grétar Halldór Gunnarsson, prestur og stjórnarmaður í Biblíufélaginu.

Hann segir að Biblíufélagið sé rétthafi íslensku biblíuþýðingarinnar og að það hafi verið auðsótt mál að leyfa birtingu hennar í snjallforriti YouVersion.

Grétar Halldór Gunnarsson.
Grétar Halldór Gunnarsson.

„Það var Styrmir Hafliðason sem kom með hugmyndina að gera íslenska Biblíuþýðingu aðgengilega í snjallforritinu The Bible App og hann ásamt hópi sjálfboðaliða þýddi viðmót snjallforritsins á íslensku,“ segir Grétar Halldór. Hann bætir við að það geti verið flókið og raunar sjaldgæft að fólks sé með Biblíuna í fanginu hvar og hvenær sem er en snjallsíminn fylgi manninum oftar og á fleiri stöðum.

Grétar Halldór segir að snjallforritið hafi náð gríðarlegum vinsældum og sé vinsælasta biblíusnjallforrit veraldar. Það sé búið að hlaða því niður 315 milljón sinnum.

„YouVersion býður upp á Biblíu í snjallforriti á 1.200 tungumálum og snjallviðmóti á 50 tungumálum,“ segir Grétar Halldór og bætir við að auk þess sem Biblían sé nú aðgengileg hvar og hvenær sem er þá fylgi snjallforritinu fleiri áhugaverðir kostir.

„Auk þess að styðja við íslensku sem hefur átt undir högg að sækja vegna mikillar notkunar ensku í viðmótum og innihaldi í tölvum og snjalltækjum mun snjallforitið hafa umbreytandi áhrif á Biblíulestur í landinu,“ segir Grétar Halldór.

„Snjallforritið mun skapa rafrænt samfélag um Biblíulestur og gera Biblíuna fyrirferðarmeiri á samfélagsmiðlunum. Snjallforritið heldur lesendum við efnið með gerð lestraráætlunar, segir Grétar Halldór og bætir við að það sé hans trú að biblíusnjallforritið dýpki efni Biblíunnar í huga lesenda og geri það meira spennandi.

YouVersion var stofnað árið 2007 í þeim tilgangi að auka aðgengi að Biblíunni og lestur hennar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert