Sólmyrkvi á laugardaginn

Fólk safnaðist saman í sólmyrkvanum 2015 til að berja sjónarspilið ...
Fólk safnaðist saman í sólmyrkvanum 2015 til að berja sjónarspilið augum. Annað eins gæti sést á laugardaginn, þó minna í sniðum. mbl.is/Kristinn

Á laugardagsmorgun sést deildarmyrkvi á sólu frá öllu landinu, ef vel viðrar. Maður verður að hafa stjörnuskoðunargleraugu til að sjá hann.

Það er ekki aðeins öryggisins vegna sem búnaður er nauðsynlegur, heldur sér maður sennilega ekkert án hans, því sólin er svo björt. Þetta segir Sævar Helgi Bragason stjörnufræðingur í samtali við mbl.is.

„Ég hvet alla sem hafa áhuga til að kíkja út á laugardagsmorgun. Mér finnst alltaf merkilegt að sjá tunglið skyggja á sólina,“ segir Sævar. „Þetta er fyrsti verulegi deildarmyrkvinn síðan 2015, þegar við fengum almyrkvann.“

Mesti myrkvi síðan 2015

Sólmyrkvinn verður upp úr 8.10 víða um land og nær hámarki um 8.50. Honum lýkur svo fyrir hálftíu. Nákvæmari tímasetningar má finna á Stjörnufræðivefnum.

Þetta er svokallaður deildarmyrkvi. Hann verður þegar sólin og tunglið eru ekki alveg í línu en tunglið hylur samt hluta sólar, nú í þessu tilfelli 14% sólar, þar sem mest er.

Deildarmyrkvi sást síðast frá Íslandi í ágúst í fyrra en sá var óverulegur. Þessi sem nú um ræðir verður sá mesti frá því Íslendingar sáu almyrkvann árið 2015.

mbl.is