Plástur á umhverfissárið

Fjölskyldan öll heima í Sviss; hjónin Ögmundur Hrafn Magnússon og …
Fjölskyldan öll heima í Sviss; hjónin Ögmundur Hrafn Magnússon og Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, ásamt börnunum þremur sem heita Þorgerður Erla (10 ára), Magnús (5 ára) og Theodór Hrafn (4 ára).

Þóru Margréti Þorgeirsdóttur óraði ekki fyrir því að hún yrði týpan sem mætti með fjölnota ílát í kjörbúðina þegar hún byrjaði að minnka sorpið hjá fjölskyldunni. Hún segir endurvinnslu á plasti í raun aðeins vera plástur á umhverfissárið og stefnir í átt að ruslfríum lífsstíl.

Þóra heldur úti skemmtilegu bloggi þar sem hún segir frá vegferð fjölskyldunnar í að minnka plastið á heimilinu. Undirtitillinn er lærdómsferli fjölskyldu enda er öll fjölskyldan með í þessu. Hún býr á Genfarsvæðinu í Sviss en fjölskyldufaðirinn, Ögmundur Hrafn Magnússon, vinnur hjá EFTA. Börnin eru þrjú, Þorgerður Erla, tíu ára, Magnús, fimm ára, og Theodór Hrafn, fjögurra ára. Sá yngsti fæddist úti en miðjubarnið var aðeins tveggja mánaða þegar þau fluttu út. Stefnan er síðan tekin aftur til Íslands á næsta ári.

Eitt af því sem er öðruvísi í Sviss er „afar takmörkuð en gjaldfrek opinber sorpþjónusta sem hvetur fólk til að flokka og minnka ruslið sitt,“ eins og ein bloggfærslan heitir. Þóra segir að sorphirðukerfið hvetji fólk sannarlega til að flokka vel enda þurfi að henda óflokkuðu sorpi í sérstaka poka sem kosta 300 kr. stykkið.

„Því minna af óflokkuðu sorpi, því færri poka þarf að kaupa. Þar að auki berum við ábyrgð á að koma bæði flokkuðu og óflokkuðu sorpi í sérstaka gáma í nágrenninu, því engir sorpbílar bruna á milli húsa til að hirða það. Þetta þýðir auðvitað að maður er í meiri snertingu við sorpið sitt, það hverfur ekki bara alltaf á tveggja vikna fresti,“ segir Þóra og útskýrir að það sé ekki hægt að komast hjá því að vera meðvitaður um umfang heimilissorpsins þegar þurfi að keyra með það á endurvinnslustöðina.

„Ég tel afar líklegt að þetta hafi haft þau áhrif að við vorum opnari og móttækilegri en ella fyrir því sem ruslfrír lífsstíll, eða „zero waste“ stendur fyrir og að ganga lengra en að flokka bara sorpið vel,“ segir Þóra.

Byrjuðu í meistaramánuðinum

Þau byrjuðu að taka flokkunina fastari tökum í meistaramánuðinum 2017 en þá settu þau sér það markmið að sorpflokkunin þeirra mætti ekki fara yfir ákveðið magn. Hún sagði frá þessu á Facebook-síðu sinni og deildi upplýsingum um verkefnið.
„Þegar á leið fann ég fyrir áhuga fólks í kringum mig og fékk ábendingu um að kannski hefðu fleiri áhuga á að fylgjast með þessu lærdómsferli okkar og úr varð að við stofnuðum við sérstaka Facebook-síðu um verkefnið og heimasíðuna minnasorp.com,“ segir Þóra og bætir við að það sé ekki síður skemmtilegt og mikilvægt að fá á móti ábendingar og hugmyndir frá öðrum.

„Við höfum alltaf horft á þetta verkefni sem lærdómsferli og það er fullt af fólki sem kann miklu betur á þennan lífsstíl en við. Á sama tíma finnum við fyrir því að Facebook-síðan veitir okkur ákveðið aðhald. Þess vegna ákváðum við að stofna Facebook-hópinn Sorpsigrar, þar sem aðrir geta birt sínar eigin sorptölur með reglubundnum hætti líkt og við höfum gert og fengið þannig samskonar aðhald og við upplifum. Hópurinn er enn til og er öllum opinn en auðvitað byggist svona síða á virkni meðlima. Ég mæli eindregið með að sem flestir skrái sig í hópinn og sýni þar til dæmis myndir af plastmagni heimilisins eftir Plastlausan september.“

Mikilvægast að kaupa minna

Önnur ástæða þess að Þóra vildi taka sorpið föstum tökum er að hún vildi ekki bíða eftir lausnum frá yfirvöldum eða fyrirtækjum heldur gera eitthvað sjálf. Hún heyrði af Bea Johnson, frumkvöðli hvað varðar ruslfrían lífsstíl og tók hana sér til fyrirmyndar. „Ég fann að þetta væri ákveðinn lífsstíll sem ég gæti tileinkað mér. Mig langaði að gera eitthvað meira sjálf varðandi þennan umhverfisvanda. Johnson segir að það sé mikilvægt að endurvinna en endurvinnsla geti ekki verið annað en plástur á umhverfissárið, eða eins og hún segir „aspirín fyrir neyslutimburmennina“. Það verður að grípa inn í fyrr í ferlinu til að ráðast á vandann og huga að neyslunni. Númer eitt, tvö og þrjú er að kaupa minna. Þá verður til minna rusl.“

Og hvernig gerir maður það?

„Þá þarftu að vera svolítið vakandi og hugsa um hvaða vörur eru til að uppfylla alvöru þarfir og hvaða vörur eru í raun til að uppfylla gerviþarfir og veita skyndiánægju. Maður verður að vera sveigjanlegur,“ segir Þóra og útskýrir að henni finnist skyr gott til dæmis til að nota í skyrdrykki og það fáist þarna úti í plastumbúðum. Hún kaupir sér það sjaldnar en hún gerði en býr þá til grænan drykk í staðinn fyrir skyrdrykk, sem krefst þess ekki að hún kaupi neitt plast.

Tækifæri í gjöfum

Hún segir að nánustu vinir og ættingar hafi sýnt verkefninu mikinn áhuga og vilji síður stuðla að auknu heimilissorpi hjá þeim.
„Það hafa þeir til dæmis sýnt með tækifærisgjöfum til okkar. Í pökkum hafa til dæmis leynst ýmsar vistvænar vörur, leikhúsmiðar og notaðar bækur. Gjöfunum er þá gjarnan pakkað inn í fjölnota poka eða gamlan endurnýttan pappír. Að ógleymdum blómvöndum sem ekki hefur verið pakkað inn. Svo er einn góður vinur okkar sem tekur það rusl sem myndast vegna hans í heimsókn hans hjá okkur, og fer með það heim til sín! Þetta hefur komið okkur skemmtilega á óvart því við höfum ekki gert neina kröfu um að fólk sýni verkefninu okkar sérstakan skilning, þannig að við kunnum svo sannarlega að meta þessa tillitssemi,“ segir Þóra og bætir við að þau hafi hinsvegar orðið vör við það að þeir sem standi þeim fjær séu feimnari við þetta.

„Við héldum til dæmis upp á fimm ára afmæli sonar okkar í sumar og þegar við vorum spurð hvað hann vildi þá nefndum við að við værum að reyna að minnka sorpið okkar og að við værum mikið fyrir endurvinnslu og endurnýtingu. Við lögðum til að gestir kæmu til dæmis með leikföng sem þeir væru hættir að nota. Þegar gjafirnar voru svo teknar upp kom í ljós að fólk var greinilega ekki alveg til í þetta. Ég veit ekki af hverju, kannski einhver hræðsla hjá viðkomandi aðilum um að vera álitnir nískir eða fátækir?“ segir Þóra og veltir fyrir sé hvort hún þurfi að senda skýrari skilaboð.

„Maður vill ekki vera leiðinlegur. Það er erfitt í samskiptum að koma þessum skilaboðum áleiðis og maður er ekkert að taka það nærri sér eða vera pirraður yfir því ef það gengur ekki. Það er þá bara frekar að sýna fordæmi. Við gefum til dæmis bíómiða, bækur, spil, eitthvað sem er ekki búið til úr plasti og ekki raftæki.“

Hver og einn getur haft áhrif

Hvað varðar sérstakar aðgerðir einstaklinga í tengslum við umhverfisvandann þá getur hvert og eitt okkar haft áhrif til dæmis með breyttri kauphegðun, færri utanlandsferðum, umhverfisvænni samgöngum, kolefnisjöfnun og með því að koma með ábendingar um úrbætur í nærumhverfi okkar, segir Þóra. „Við eigum til dæmis ekki að hika við að vera í meiri samskiptum við framleiðendur og matvöruverslanirnar okkar, hvort sem það er með símhringingum, tölvupósti eða samtali við starfsfólk, og kalla eftir auknu framboði á vistvænni vörum og umbúðum. Það er þó afar mikilvægt að þessum ábendingum sé komið á framfæri með vinsamlegum hætti þannig að á þær sé hlustað,“ segir hún og bendir á að eftir því sem eftirspurnin breytist þá breytist vonandi líka framboðið.

Nánar er talað við Þóru í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina þar sem hún gefur m.a. góð ráð til þess að minnka sorpið.

Það þarf ekki að nota plastpoka við garðvinnuna heldur er …
Það þarf ekki að nota plastpoka við garðvinnuna heldur er vel hægt að nota margnota ílát.
Þessar sápur eru ekki aðeins fallegar heldur þurfa þær engar …
Þessar sápur eru ekki aðeins fallegar heldur þurfa þær engar plastumbúðir.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »