Munu valda meiri ókyrrð í lofti

Andrúmsloftið verður óstöðugra með auknu magni koltvíoxíðs.
Andrúmsloftið verður óstöðugra með auknu magni koltvíoxíðs. AFP

Vísindamenn telja að loftslagsbreytingar muni valda mun meiri ókyrrð í háloftunum sem aftur gæti fjölgað flugatvikum eins og því er varð um helgina er flugvél Turkish Airlines missti skyndilega hæð með þeim afleiðingum að farþegar slengdust í veggi hennar og loft og ein flugfreyja fótbrotnaði. 28 voru fluttir á sjúkrahús.

Í frétt Forbes um málið segir að talið sé að mikil ókyrrð muni aukast um hundruð prósenta á næstu árum í hinu fjölfarna loftrými yfir Norður-Ameríku, Evrópu og Norður-Kyrrahafi. Skýringin er sú að aukið koltvíoxíðmagn í andrúmsloftinu er nú tvisvar sinnum meira en fyrir iðnbyltingu. 

„Tíðni ókyrrðar í lofti yfir Atlantshafinu að vetri til mun aukast svo um munar [...] samhliða því að loftslagið breytist,“ skrifaði Paul D. Williams, prófessor við Háskólann í Reading, í rannsóknarniðurstöðum sínum árið 2017. 

Vél Turkish Airlines var yfir Maine á laugardag og átti 45 mínútur eftir á flugi til lendingar er hún missti skyndilega hæð með fyrrgreindum afleiðingum. Vélin lenti heilu og höldnu í New York þar sem floti sjúkrabíla beið farþega og áhafnar.

Í rannsókn Wiliams og félaga kom fram að fjárhagslegar afleiðingar hinnar auknu ókyrrðar í lofti yrðu margvíslegar. Vélar yrðu fyrir ýmsum áföllum, flugferðum verður oftar seinkað og viðgerðarkostnaður eykst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert