Semdu með Bach og gervigreind

Tónverk samið í forritinu. Hægt er að skrifa nóturnar upp …
Tónverk samið í forritinu. Hægt er að skrifa nóturnar upp en þeir sem lesa ekki nótur fá aðstoð þar sem tónarnir birtast á skjá þegar músin hangir yfir nótnablaðinu. Skjáskot

Bandaríski tæknirisinn Google heiðrar minningu tónskáldsins Johann Sebastian Bach með því að bjóða notendum upp á að semja stutta laglínu í tveimur töktum sem gervigreind útsetur í barokk-stíl Bachs fyrir fjórar raddir/hljóðfæri.  

Joahann Sebastian Bach fæddist árið 1685 og lést árið 1750.
Joahann Sebastian Bach fæddist árið 1685 og lést árið 1750. Teikning/Elias Gottlob Haussmann

Þegar gestir koma inn á google.com blasir möguleikinn við þeim en gervigreindarforrit greindu 306 kórverk eftir þýska tónskáldið sem fæddist einmitt 21. mars árið 1685. Þær greiningar voru notaðar til að búa til formúlur sem útsetningar Google byggja á.

Tónsmíðaforritið er eitt af tilbrigðum við Google doodle-verkefni Google en þau birtast tímabundið á forsíðu fyrirtækisins þar sem almenningi er boðið að taka þátt.

Þótt forritið sé afar einfalt eru einhverjir möguleikar í boði, til að mynda er hægt að hægja og hraða á lagstúfnum en einnig er hægt að hlaða niður midi-skjali með útsetningunni sem hægt er að vinna með í tónvinnslu-forritum.

Ef maður er ósáttur við túlkun forritsins á laglínunni er hægt að biðja hana um aðra og að sjálfsögðu er hægt að deila sköpunarverkinu á helstu samfélagsmiðlum.

Það má því segja að hver sem er geti nú samið eins og Bach og hér fyrir neðan má sjá stutt myndskeið sem gert var vegna verkefnisins.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert