Segja Galaxy-símann ekki gallaðan

Síminn í eigu Lee sem varð fyrir skemmdum á suðurkóresku …
Síminn í eigu Lee sem varð fyrir skemmdum á suðurkóresku eyjunni Jeju. AFP

Samsung stendur þétt við bakið á nýja Galaxy S10 5G-símanum eftir að suðurkóreskur snjallsímaeigandi birti myndir á netinu af símanum sínum sem hann sagði að hefði kviknað í á dularfullan hátt.

Tæknirisinn Samsung, sem fyrir þremur árum varð að innkalla síma sína af tegundinni Galaxy Note 7 víða um heim vegna rafhlaðna sem sprungu, sagði við AFP-fréttastofuna að eitthvað utanaðkomandi hefði valdið bruna símans en ekki innri galli.

AFP

Snjallsímaeigandinn, sem kallar sig Lee, sagði að kviknað hefði í símanum „án nokkurrar ástæðu“.

„Síminn minn var á borðinu þegar ég fann brunalykt og fljótlega fór að rjúka úr símanum,“ sagði Lee við AFP. „Ég varð að henda honum á gólfið þegar ég snerti hann vegna þess að hann var svo heitur.“

Hann kvaðst ekki hafa gert neitt við símann áður en óhappið varð. Tækið hafi svo orðið ónýtt vegna þess að „allt inni í því var brunnið“.

Lee bætti við að Samsung hefði neitað að endurgreiða honum símann, sem kostaði tæpar 150 þúsund krónur.

Samsung varð í síðustu viku að fresta því að hefja sölu á samanbrjótanlega símanum sínum Galaxy Fold vegna vandamála með skjáinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert