Leystu upp alþjóðlegt netglæpagengi

Rannsóknin sú stærsta sem framkvæmd hefur verið hjá Europol á …
Rannsóknin sú stærsta sem framkvæmd hefur verið hjá Europol á sviði netglæpa þar sem samvinna lögregluyfirvalda þvert á landamæri er jafn umfangsmikil. AFP

Alþjóðlegt glæpagengi sem hefur nýtt sér spilliforrit (e. malware) til að hafa um 100 milljónir dollara, jafnvirði rúmlega 12 milljarða króna, af um 40 þúsund fórnarlömbum, hefur verið leyst upp af Europol. 

Umfangsmikil aðgerð lögregluyfirvalda í Bandaríkjunum, Búlgaríu, Þýskalandi, Georgíu, Moldóvu og Úkraínu leiddi til handtöku liðsmanna í netglæpagengi sem gengur undir nafninu GozNym, sem er jafnframt heiti spilliforritsins sem gengið notar, sem gerir þjófunum kleift að komast yfir bankaupplýsingar notenda.

Farið var yfir samræmdar aðgerðir lögregluumdæma í höfuðstöðvum Europol í Haag í dag, en samkvæmt upplýsingum frá Europol er rannsóknin sú stærsta sem framkvæmd hefur verið á sviði netglæpa þar sem samvinna lögregluyfirvalda þvert á landamæri er jafn umfangsmikil.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að netglæpagengið seldi forritið til annarra glæpagengja sem nýttu það í starfsemi sinni sem er algjört nýmæli.

Leiðtogi GozNyn var handtekinn og ákærður í Georgíu, tíu liðsmenn GozNym eru ákærðir í Pittsburgh í Bandaríkjunum, einn hefur verið framseldur frá Bandaríkjunum til Búlgaríu, einn í Moldóvu og tveir hafa verið ákærðir í Þýskalandi fyrir peningaþvætti.

Meðal fórnarlamba netglæpagengisins eru stór jafnt sem smá fyrirtæki, lögfræðistofur, alþjóðleg fyrirtæki og ýmis fyrirtæki sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.

Fimm rússneskir liðsmenn gengisins eru á flótta í Evrópu, þar á meðal sá sem þróaði spilliforritið og sá um að koma því í hendur annarra glæpagengja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert