Google takmarkar tengsl Huawei

AFP

Netfyrirtækið Google, sem á Android-stýrikerfið sem notað er í flesta snjallsíma, ætlar að slíta tengslin við kínverska símafyrirtækið Huawei en stjórnvöld í Washington telja fyrirtækið ógna þjóðaröryggi. 

Í miðju viðskiptastríði við Kína hefur forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, bannað bandarískum fyrirtækjum að eiga í viðskiptum við útlend fyrirtæki sem eiga að ógna þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Þar á meðal er Huawei en í ákvörðun bandarískra stjórnvalda felst meðal annars bann við því að deila tækniupplýsingum. 

Talsmanneskja Google segir að verið sé að fara yfir samskiptin og rjúfa tengslin. Þetta getur haft gríðarlegar breytingar í för með sér því Google, líkt og öll önnur tæknifyrirtæki, verður að vera í samstarfi við snjallsímaframleiðendur til þess að tryggja að kerfi þeirra henti viðkomandi tækjum. Þetta veldur því að ekki verður hægt að nálgast einhver Google-smáforrit í nýjustu útgáfum Huawei.

mbl.is