Metan á Mars er „mikil ráðgáta“

Sævar Helgi Bragason,ritstjóri Stjörnufræðivefsins.
Sævar Helgi Bragason,ritstjóri Stjörnufræðivefsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er mikil ráðgáta sem ég veit að allir Mars-vísindamenn eru ólmir í að leysa,“ segir Sævar Helgi Bragason um nýjustu fregnir af metan-fundi á Mars í samtali við mbl.is

„Ég er mjög spenntur og búinn að vera það í rúm 10 ár þegar þetta kom fyrst í fréttirnar. Þá varla trúði maður sínum eigin eyrum, því á jörðinni vitum við að metan kemur oftast frá lífverum,“ bætir hann við.

The New York Times greindi frá því fyrstur fjölmiðla í gær að mikið magn af metani hafi mælst í lofthjúpi Mars. Metan hefur að vísu áður fundist á plánetunni, það gerðist fyrst árið 2003. Árin 2013 og 2014 mældist svo töluvert meira af gastegundinni í loftinu við Mars en það var einungis þriðjungur af magninu sem mældist nú í vikunni.

„Það er ómögulegt að segja til um hvað þetta þýðir eins og er. Menn hafa núna í rúman áratug mælt metan í lofthjúpi Mars sem kom mjög á óvart vegna þess að metan myndast einkum með tvennum hætti.“

„Annars vegar lífrænum, sem er þá frá metanmyndandi örverum og svo getur metan myndast í jarðhitakerfum, eldfjöllum og svo framvegis. Þannig þetta getur verið að líffræðilegum toga eða jarðfræðilegum,“ útskýrir Sævar.

Hvort sem gasið hefur myndast með lífrænum eða ólífrænum hætti er ljóst að það hefur myndast nýlega enda er metan mjög skammlíf gastegund sem brotnar fljótt niður í útfjólubláu ljósi frá sólinni.

Þögn NASA gefur ekki vísbendingar

Sævar segir að Curiosity, rannsóknarvélmenni NASA, sem mældi metangasið sé því miður ekki með nægilega góð mælitæki til að hægt sé að segja til um hvernig gasið myndaðist. Hins vegar sé evrópskt geimskip á braut um Mars sem heitir Trace Gas Orbiter og það sé útbúið næmustu mælitækjum sem send hafa verið til Mars. Vonir eru því bundnar við að svör fáist bráðlega við þeim ótal spurningum sem hafa vaknað.

Enn sem komið er hefur NASA ekki tjáð sig um fundinn. Sævar telur ekki hægt að lesa of mikið í þögnina því vísindamenn séu ávallt varkárir, sérstaklega þegar um sé að ræða uppgötvanir sem gætu verið mjög stórar.

„Það átti að verja helginni í að gera frekari mælingar og þá kemur í ljós hvort metan magnið sé svipað, sé að minnka eða aukast. Vonandi fáum við að heyra eitthvað strax í næstu viku en það gætu líka alveg liðið nokkrar vikur eða mánuðir,“ bætir hann við.

mbl.is