Talbankinn er handan við hornið

Raddstýrð bankaþjónusta er handan við hornið og nokkrir nýútskrifaðir tölvunarfræðinemar frá HR hafa að undanförnu unnið drög að fyrstu slíku þjónustunni í samstarfi við Landsbankann. Talbankinn nefnist app sem er í þróun og þar er hægt að framkvæma einfaldar aðgerðir á borð við millifærslur.

Verkefnið var unnið sem lokaverkefni við skólann og ég hitti þá Snorra Arinbjarnar, Smára Frey Guðmundsson, Bjarka Hrafn Axelsson og Leif Pálsson í HR þar sem þeir sýndu mér nokkrar aðgerðir á borð við að reikna gengi og að greiða reikninga.

Viðmót hugbúnaðar af ýmsu tagi er í sífellt auknum mæli að færast í raddstýringu. Enskumælandi þjóðir hafa þar mikið forskot þar sem hugbúnaðurinn er að mestu þróaður í Kaliforníu. Það er því að ýmsu að huga þegar kemur að því að gera íslensku skiljanlega í stafrænu umhverfi.

Þeir segja raddstýrða bankaþjónustu vera í sókn erlendis og því hafi Landsbankinn verið áhugasamur um að kanna möguleikann á íslenskri útfærslu. „Það er ekkert mikið af þjónustu á borð við Siri [raddstýring Apple] eða Google Assistant [raddstýring Google] í boði á íslensku. Þetta eru ótroðnar slóðir getum við sagt,“ segir Smári Freyr. 

Verkefnið hafi fyrst og fremst snúið að því að sanna að hægt væri að raddstýra bankaþjónustu á íslensku og þeir félagar segja að það hafi tekist. Næstu skref á eftir að ákveða en eins og sjá má í myndskeiðinu hefur appið full tök á að framkvæma einföldustu og algengustu aðgerðir viðskiptavina bankanna.

Þeir benda þó á að öpp séu ekki besta leiðin fyrir raddstýringu. Snjallir hátalarar sem starfi í bakgrunni og eru tilbúnir að taka við skipunum hvenær sem er séu bestu tækin til að nýta raddstýringu. „Þetta er svolítið nýtt og þegar þetta [raddstýring] verður betra í skilja allt sem þú segir. Það eru stundum hindranir á bak við tjöldin. Þá mun þetta vera framtíðin fyrir fólk á ferðinni og fólk með hamlanir sérstaklega,“ útskýrir Bjarki Hrafn.    

mbl.is