Fátæktarrannsakendur fá Nóbelsverðlaun í hagfræði

Abhijit Banerjee, Esther Duflo og Michael Kremer deila Nóbelsverðlaununum í …
Abhijit Banerjee, Esther Duflo og Michael Kremer deila Nóbelsverðlaununum í hagfræði árið 2019. AFP

Þrír hagfræðingar deila með sér Nóbelsverðlaunum í hagfræði í ár, þau Abhijit Banerjee og Esther Duflo frá MIT-háskólanum og Michael Kremer frá Harvard-háskóla. Verðlaunin fá þau fyrir rannsóknir sínar tengdar því hvernig megi draga úr fátækt á heimsvísu.

Duflo er einungis önnur konan til þess að hljóta Nóbelsverðlaun í hagfræði. Hún er 46 ára gömul og er því yngsta manneskjan sem hefur fengið verðlaunin.

Samkvæmt verðlaunanefndinni fá hagfræðingarnir þrír verðlaunin fyrir að setja fram nýja nálgun til þess að fá áreiðanleg svör um bestu leiðirnar til þess að takast á við fátækt á heimsvísu.

Í stuttu máli felst það í því að skipta þessu víðfeðma viðfangsefni niður í minni viðráðanlegri spurningar – til dæmis með því að afmarka rannsóknirnar við það að reyna að svara þvi hverjar séu bestu leiðirnar til þess að bæta heilsu barna eða árangur í menntakerfum.

„Þau hafa sýnt að þessum minni og nákvæmari spurningum er oft best svarað með vandlega hönnuðum tilraunum á meðal fólksins sem verður fyrir mestum áhrifum [af fátækt],“ segir í umsögn Nóbelsnefndarinnar.

Einnig segir verðlaunanefndin að niðurstöður þríeykisins og sporgöngumanna þess hafi stóraukið möguleikana á því að takast á við fátækt.

„Bein afleiðing einnar rannsóknar þeirra er sú að meira en fimm milljónir indverskra barna hafa notið jákvæðs ávinnings af stuðningskennslu í skólum. Annað dæmi eru þær háu niðurgreiðslur til fyrirbyggjandi heilsugæslu sem kynntar hafa verið í mörgum löndum,“ segir dómnefndin.

mbl.is