ON setur upp um 40 hleðslur

Orka náttúrunnar ætlar að setja upp um 40 hleðslur á …
Orka náttúrunnar ætlar að setja upp um 40 hleðslur á næstunni.

Orka náttúrunnar ætlar á næstunni að setja upp um 40 hleðslur fyrir rafbíla víðs vegar um landið, þar af sautján 150kW-hraðhleðslur.

Þetta varð ljóst eftir að niðurstaða Orkusjóðs um styrkveitingar til uppbyggingar umhverfisvænna innviða lá fyrir, að því er kemur fram í tilkynningu.

Á dögunum var tilkynnt að Orka náttúrunnar, sem hefur verið í forystu uppbyggingar fyrir orkuskipti í samgöngum allt frá 2014, fengi styrki til uppsetningar á hraðhleðslubúnaði fyrir rafbíla og svo sérstaklega til að efla græna ferðaþjónustu í samstarfi við Íslandshótel og Icelandair Hotels.

„Það er sérstakt ánægjuefni að hugmyndir okkar um að setja upp öflugri og hraðvirkari búnað hlutu hljómgrunn og við hyggjumst setja upp sautján 150kW hraðhleðslur á mikilvægum stöðum fyrir rafbílaeigendur,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, í tilkynningunni. Hleðslur verða meðal annars á tíu stöðum við hringveginn og í grennd Keflavíkurflugvallar. 

Berglind bendir á að Íslendingar eigi enn þá talsvert í land með að ná settum loftslagsmarkmiðum og þar vega tækifærin í samgöngum þungt.

Hraðhleðsla á Þingvöllum

Á grundvelli fyrri úthlutunar uppbyggingarstyrkja frá Orkusjóði hefur Orka náttúrunnar unnið með þjóðgarðinum á Þingvöllum að því að setja þar upp hraðhleðslu. Vegna sérstakrar verndar sem þjóðgarðurinn nýtur fór framkvæmd við lagningu rafmagnsstrengs frá Haki niður í Þjónustumiðstöð í mat á umhverfisáhrifum. Því er nú lokið og undirrituðu fulltrúar aðila formlegan samning um uppsetningu nú á dögunum.

mbl.is