Ljósleiðaravæðingu í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu lokið

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarness, Gunnar …
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarness, Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur. Ljósmynd/Valur Heiðar Sævarsson

Ljósleiðarinn nær nú til allra heimila í þéttbýli í Kópavogi, Seltjarnarnesi, Garðabæ, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Reykjavík. Sveitarstjórar þeirra sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu tóku á dögunum á móti staðfestingu frá Gagnaveitu Reykjavíkur.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þar segir enn fremur að sveitarfélögin séu að ryðja brautina í stafrænni þjónustu við íbúa og í þátttöku þeirra í stjórn sveitarfélaganna í gegnum netið. Ljósleiðaravæðing styðji einnig við atvinnulíf, efli nýsköpun með öflugum innviðum og er grunnur að fimmtu kynslóð farsímakerfa.

„Þetta umfangsmikla innviðaverkefni á sér talsverða sögu. Seltjarnarnes var fyrsta sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem gerði samkomulag við Gagnaveitu Reykjavíkur um ljósleiðaratengingu hvers einasta heimilis í bænum. Reykjavík kom þar á eftir og síðan hvert sveitarfélagið af öðru. Markmið þessa var í öllum tilvikum að stuðla að tengingu heimilanna við fjarskiptanet sem stæðist tímans tönn og nú njóta íbúar einhvers öflugasta sambands sem heimilum stendur til boða, eitt gíg, eða þúsund megabita hraða í báðar áttir,“ segir í tilkynningunni.

„Þetta er heilmikið verkefni sem nú er að baki og það hefur verið frábært að vinna það með þessu forystufólki sem öll horfa langt fram á við í uppbyggingu sveitarfélaganna. Snjallsamfélög, þar sem ótrúlega mörg verkefni daglegs lífs eru leyst með öðrum hætti en áður, eru að byggjast upp mjög ört. Snjallari lausnir eru umhverfisvænni og þess vegna er svo mikilvægt að vinna að framgangi þeirra.

Það er einstaklega ánægjulegt að hafa átt svo gott samstarf við sveitarfélögin. Nú eru í heildina fleiri en 100.000 heimili tengd Ljósleiðaranum og við hjá Gagnaveitu Reykjavíkur stefnum að því að tengja að lágmarki 20.000 heimili á næstu árum,“ segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur.

mbl.is