Samspil krabbameinsfrumna og heilbrigðra í vexti meinvarpa

Smásjármynd af meinvarpi brjóstakrabbameins í lungum. Örvar vísa á meinvarpið …
Smásjármynd af meinvarpi brjóstakrabbameins í lungum. Örvar vísa á meinvarpið (litað í brúnum lit) og brotalína sýnir mörk æxlisins sem myndað var í músamódeli. Frumukjarnar eru bláir. Ljósmynd/Rannsóknarstofa Þórðar Óskarssonar

Vísindamenn við HI-STEM gGmbH og þýsku krabbameinsstofnunina í Heidelberg hafa uppgötvað mikilvægt samspil krabbameinsfrumna og heilbrigðra bandvefsfruma við myndun meinvarpa í lungum.

Greint var frá niðurstöðunum fyrr í dag í vísindaritinu Nature Communications, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Við framgöngu krabbameina geta meinvörp orðið til þegar krabbameinsfrumur losna frá upprunalega æxlinu og dreifast um líkamann. Vöxtur meinvarpa er helsta orsök þess að krabbamein gerast banvæn. Hins vegar geta fæstar krabbameinsfrumur myndað meinvörp, þó svo að þær hafi dreifst í önnur líffæri,“ segir í tilkynningunni.

„Það er vegna þess að aðstæður í þessum líffærum styðja yfirleitt ekki framgöngu illkynja frumna sem koma utan frá. Í raun deyja flestar krabbameinsfrumur sem yfirgefa upprunalega æxlið. Þær örfáu æxlisfrumur sem ná að vaxa í fjarlægum líffærum geta breytt eiginleikum nærumhverfisins til að styðja eigin vöxt. Þetta hefur verið kallað myndun illkynja vistar og byggist á samspili krabbameinsfrumna og heilbrigðra frumna í þessum líffærum.“

Íslenskur líffræðingur og teymi hans 

Þórður Óskarsson líffræðingur og teymi vísindamanna hans á rannsóknastofu í Heidelberg komust að því að krabbameinsfrumur sem seyta bólgumyndandi prótínum, svokölluðum interleukinum, geta breytt eiginleikum heilbrigðra bandvefsfruma í lungum á þann veg að þær styðja vöxt meinvarpa.

Stuðningurinn er í formi framleiðslu á seyttum prótínum sem kallast CXCL9/10 og illvígar krabbameinsfrumur geta notfært sér til eigin framdráttar.

Í greininni, sem byggist á fimm ára starfi, lýsa vísindamennirnir þessum mikilvægu samskiptum ítarlega og útskýra hvernig þau efla vöxt meinvarpsins.

Þórður segir að of snemmt sé að draga ályktanir um mögulegar nýjar meðferðir, en þessar uppgötvanir auka skilning okkar á því hvernig meinvörp myndast og undirstrika mikilvægi heilbrigðra frumna í ferlinu. Vonast er til þess að í framtíðinni þróist aðferðir sem geta á öruggan hátt hindrað þessi ákveðnu samskipti krabbameinsfrumna og heilbrigðra frumna.

HI-STEM (Heidelberg Institute for Stem Cell Technology and Experimental Medicine) gGmbH er samstarf þýsku krabbameinsstofnunarinnar og styrktarsjóðs Dietmars Hopps.

mbl.is