EVE Online „áhugaverðastur og trylltastur“ allra

„Ef þú elskar töflureikni (e. spreadsheets) og vilt umbreyta þeim …
„Ef þú elskar töflureikni (e. spreadsheets) og vilt umbreyta þeim áhuga í vald ásamt mörg þúsund öðrum gallhörðum spilurum sem hafa barist um yfirráð í sömu sýndarvetrarbrautinni síðan 2003, þá er þessi leikur fyrir þig,“ segir m.a. í umfjöllun New York Times um fjölspilunarleikinn EVE Online. Ljósmynd/Aðsend

EVE Online er „kannski áhugaverðastur og trylltastur“ allra þeirra tölvuleikja sem spilurum stendur til boða þessa stundina til að stytta sér stundir í kórónuveirufaraldrinum. Það er að minnsta kosti mat blaðamanns New York Times sem hefur tekið saman ítarlegan lista yfir tölvuleiki sem geta létt spilurum lífið á þessum fordæmalausu tímum. 

Í greininni leiðir Seth Schiesel, sem sérhæfir sig í tölvuleikjaskrifum, lesendur sem hafa fengið sig fullsadda á bókalestri, sjónvarpsglápi og gömlum borðspilum inn í heim tölvuleikjanna. Af nægu er að taka og fer Schiesel yfir ótal leiðir til að spila tölvuleiki, allt frá í síma yfir í borðtölvu, og þar er fjöl­spil­un­ar­leik­inn EVE On­line kynntur til sögunnar og sagður áhugaverðastur þeirra allra. 

„Ef þú elskar töflureikni (e. spreadsheets) og vilt umbreyta þeim áhuga í vald ásamt mörg þúsund öðrum gallhörðum spilurum sem hafa barist um yfirráð í sömu sýndarvetrarbrautinni síðan 2003, þá er þessi leikur fyrir þig,“ segir í umfjöllun NYT. 

Þar segir að það taki vissulega tíma að komast upp á lagið með að spila leikinn. „En ef þú vilt bara fljúga um í geimskipi og segja „pjú pjú“ á meðan þú skýtur leysigeislum út um allt er það í góðu lagi líka,“ segir jafnframt. 

Hilm­ar Veig­ar Pét­urs­son, fram­kvæmda­stjóri tölvu­leikja­fyr­ir­tæk­is­ins CCP, sem þróaði EVE Online frá upphafi, sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að áhrif kórónuveirufaraldursins sé að merkja hjá fyrirtækinu og lýsir sér fyrst og fremst í notendafjölda. 

„Helg­in hjá okk­ur núna var al­gjört met, 10.000 manns eru að skrá sig fyr­ir nýj­um reikn­ingi á dag,“ sagði Hilm­ar, sem er rúm þreföldun á daglegum nýskráningum miðað við sama tíma í fyrra. 

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP. Ljósmynd/CCP

Þá eru marg­ir gaml­ir not­end­ur að snúa til baka til að end­ur­nýja kynn­in við aðra spil­ara. „Við sjá­um marga not­end­ur koma til baka núna, til dæm­is til þess að spjalla við aðra not­end­ur gegn­um spjall­mögu­leik­ann á EVE,“ sagði Hilm­ar Veig­ar og bætti því við að tölvu­leik­ur­inn sé nán­ast lækn­ing á þeim ein­mana­leika og ein­angr­un sem heims­byggðin nú glími við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert