Gervigreindur kennari tekur til starfa í HR

Gervigreindur aðstoðarkennari verður tekinn í notkun í nokkrum áföngum við …
Gervigreindur aðstoðarkennari verður tekinn í notkun í nokkrum áföngum við HR í haust. mbl.is/Árni Sæberg

Nýr gervigreindur aðstoðarkennari frá Atlas Primer verður tekinn í notkun í völdum áföngum í Háskólanum í Reykjavík í haust, en hann mun meðal annars aðstoða kennara við að flytja fyrirlestra, svara spurningum nemenda og æfa þá í kennsluefninu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá íslenska sprotafyrirtækinu Atlas Primer sem sérhæfir sig í menntatækni sem ætlað er að stuðla að jákvæðum samfélagslegum úrbótum.

Hinrik Jósafat Atlason, stofnandi Atlas Primer og stundakennari við HR.
Hinrik Jósafat Atlason, stofnandi Atlas Primer og stundakennari við HR. Ljósmynd/Aðsend

Í tilkynningunni segir að talþjóninum sé ætlað að auka sveigjanleika námsins með því að ræða við nemendur á töluðu máli hvert sem þeir fara, en hann byggir á máltækni sem gerir honum kleift að eiga samræður á töluðu máli og er hann aðgengilegur í nánast öllum snjalltækjum og getur því fylgt nemendum hvert sem þeir fara.

Talþjónninn getur rætt við nemendur um kennsluefnið, svarað spurningum um það og prófað þá í efninu, auk þess sem hann getur flutt fyrirlestra og veitt aðgang að öðru kennsluefni eins og rafrænum kennslubókum.

„Þessari lausn er ekki ætlað að koma í staðinn fyrir kennara heldur á hún að hjálpa þeim að nýta tíma sinn betur og verja meiri tíma í að sinna þörfum hvers og eins nemanda,“ segir Hinrik Jósafat Atlason, stofnandi Atlas Primer og stundakennari við HR.

Aðstoðarkennarinn getur fylgt nemendum hvert sem er.
Aðstoðarkennarinn getur fylgt nemendum hvert sem er. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina