Komast þeir út í geim í dag?

Menn bíða spenntir í Flórída. Mun þeim takast að komast …
Menn bíða spenntir í Flórída. Mun þeim takast að komast út í geim í dag? AFP

Bandaríska fyrirtækið SpaceX mun gera aðra tilraun í kvöld til að koma tveimur geimförum bandarísku geimferðastofnunarinnar (NASA), þeim Doug Hurley og Bob Behnken, á braut um jörðu. 

Til stóð að skjóta þeim á loft á miðvikudaginn frá geimferðamiðstöð Bandaríkjanna í Flórída, en skotinu var frestað sökum veðurs. Markmiðið er að koma geimförunum um borð í Alþjóðlegu geimstöðina (ISS). 

Spáin í dag er ekkert sérstök, að því er fram kemur á vef BBC, og því mikil spenna í lofti hvort takist að koma mönnunum á loft. Stefnt er að flugtaki kl. 15:22 að bandarískum tíma, eða kl. 19:22 að íslenskum tíma í kvöld. 

AFP

Mikill áhugi er á verkefninu en takist það verður þetta í fyrsta sinn frá árinu 2011 að Bandaríkjunum tekst að koma geimförum um borð í ISS, eða frá því bandarísk yfirvöld hættu að skjóta geimferjum á loft. 

Þetta verður jafnframt í fyrsta sinn sem NASA mun vinna með einkafyrirtæki að því að koma áhöfn sinni út í geim.

Jim Bridenstine, forstjóri NASA, segir að geimförunum verði skotið á loft þegar allt er klárt. Hann segir að Trump Bandaríkjaforseti og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hafi lýst því yfir að þeir hafi verið stoltir og sáttir við ákvörðun NASA og SpaceX að hætta við skotið sl. miðvikudag. Það hafi verið rétt ákvörðun í ljósi aðstæðna. 

mbl.is