Veiran berist með loftinu

Sérfræðingarnir telja að meiri smithætta sé af veirunni í lofti …
Sérfræðingarnir telja að meiri smithætta sé af veirunni í lofti en talið var. AFP

239 vísindamenn frá 32 löndum hafa sent Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni opið bréf þar sem farið er yfir rök fyrir því að enn smærri eindir kórónuveirunnar í loftinu geti valdið smiti en áður var talið. 

Hópurinn hvetur stofnunina til þess að endurskoða leiðbeiningar sínar um smitleiðir veirunnar. Stofnunin hefur haldið því fram að veiran smitist aðeins loftleiðis undir ákveðnum kringumstæðum samkvæmt New York Times. Loftræsting skipti því alla jafna ekki máli. 

Lögð áhersla á handþvott

Sérfræðingarnir eru á öðru máli og telja mikilvægt að gætt verði að loftræstingu í meira mæli og að fólk verði hvatt til að bera andlitsgrímu, jafnvel innandyra. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur aðallega lagt áherslu á handþvott og sótthreinsun til að hindra útbreiðslu faraldursins. Í grein NYT kemur fram að umræddur hópur vísindamanna telji að hægt sé að smitast af veirunni með því að anda henni að sér.

Þá skipti ekki máli hvort um sé að ræða stærri eindir sem fara með hraða í gegnum loftið, eða þá smærri eindir sem svífa um yfir lengri tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina