Apple nái kolefnishlutleysi árið 2030

Tim Cook, forstjóri Apple.
Tim Cook, forstjóri Apple. AFP

Stórfyrirtækið Apple tilkynnti í dag að öll starfsemi fyrirtækisins, þar á meðal aðflutningur á vörum til framleiðslu tækja, yrði orðin kolefnishlutlaus árið 2030. Verður það gert til að aðstoða í baráttunni gegn loftlagsbreytingum.

Fyrirtækið hefur þegar náð kolefnishlutleysi þegar kemur að skrifstofurekstri en ætlar að ganga lengra og tryggja að allar framleiddar vörur verði kolefnisjafnaðar.

Apple ætlar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 75% fyrir árið 2030 og þangað til ætlar fyrirtækið að þróa „nýjar leiðir til eyða kolefni“ fyrir hin 25%. Fyrirtækið ætlar meðal annars að lagfæra grassléttur í Kenía og hitabeltisvistkerfi í Kólumbíu.

„Fyrirtæki eiga risastórt tækifæri til að hjálpa við að byggja upp sjálfbæra framtíð, sem tekur mið af sameiginlegri umhyggju okkar á jörðinni,“ sagði Tim Cook, forstjóri Apple.

Yfir 70 birgjar Apple hafa skuldbundið sig til að nota einungis 100% endurnýjanlega orkugjafa við framleiðslu á vörum og pörtum fyrir Apple.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert