Yfir 100 smit tengd saman

Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Tekist hefur að tengja yfir 100 kórónuveirusmit saman á Íslandi með kortlagningu erfðamengis veirunnar. Allt bendir til að smitin tengist öll og eigi uppruna í manneskju eða manneskjum smituðum af COVID-19 sem kom til Íslands frá Balkanskaganum. Þetta kemur fram í viðtali við Kjartan Hrein Njálsson, aðstoðarmann landlæknis, á vef norska fjölmiðilsins Dagbladet. 

Dagbladet fjallar um mikla fjölgun nýrra smita í kjölfar tveggja hópsmita á Íslandi í sumar. Ekki hafi enn tekist að finna uppruna smitsins sem hefur valdið flestum nýjum smitum, það er frá Balkanskaganum.

Hertar sóttvarnareglur eru til umfjöllunar en alls eru 122 með virkt kórónuveirusmit á Íslandi í dag. Tæplega 500 eru í sóttkví. Af 57 nýjum COVID-19-smitum í síðustu viku eru 27 þeirra að utan. 

Kjartan Hreinn segir í viðtalinu að með skimun á landamærunum hafi þó nokkur smit greinst og viðkomandi séu sendir umsvifalaust í einangrun. Hægt sé að ímynda sér hver staðan væri ef ekki væri um skimun að ræða á landamærunum ef horft væri til þess að út frá einni smitaðri manneskju eða hópi fólks sem kom til landsins hafi yfir 100 smitast hér á landi. Slíkt hefði haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér fyrir heilbrigðiskerfi Íslands. 

Hann segir að margir þeirra sem hafi greinst með smit hafi greinst í sóttkví og að allt bendi til þess að Íslendingar séu að ná tökum á þessari bylgju COVID-19.

Frétt Dagbladet

Fréttin hefur verið uppfærð, en landlæknisembættið gerði athugasemd við frétt Dagbladet vegna misskilnings blaðamans og verður frétt Dagbladet einnig uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina