Varar við notkun of snemma

Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna.
Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna. AFP

Helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjanna varar við því að fólk noti bóluefni við kórónuveirunni fyrr en klínískar rannsóknir hafi sýnt fram á að það sé öruggt og gagnlegt.

Dr Anthony Fauci var í viðtali við Reuters-fréttastofuna í gær um þróun bóluefnis við COVID-19 og þar kemur einnig fram að hann telji að kapp sé betra með forsjá að öðrum kosti geti það haft slæmar afleiðingar við þróun annars bóluefnis.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, íhugar að heimila markaðssetningu bóluefnis áður en rannsóknum á því er að fullu lokið. Það gæti, að sögn BBC, haft góð áhrif á möguleika hans í komandi forsetakosningum.

Demókratar saka forsetann um að með því geti hann ógnað lífi bandarískra þegna í eigin þágu á sviði stjórnmála.

Trump skrifaði á Twitter á laugardag að bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið, Food and Drug Administration (FDA), sé að gera lyfjafyrirtækjum afar erfitt fyrir við að fá sjálfboðaliða í lyfjaprófanir. 

Financial Times greindi frá því að bandarísk stjórnvöld séu að kanna hvort hægt sé að veita neyðarheimild (Emergency Use Authorization - EUA) til bólusetninga á bóluefni sem er í þróun hjá Oxford-háskóla og lyfjaframleiðandanum AstraZeneca.

AFP

Um 10 þúsund einstaklingar taka þátt í klínískum prófunum á lyfinu en FDA setur sem skilyrði fyrir markaðsleyfi að lyfið hafi verið reynt á 30 þúsund manns. 

„Það eina sem þú vilt ekki að gerist varðandi bóluefni er að það fái EUA-heimild áður en gagnsemi þess er ljós,“ segir Fauci. 

Hætta er á að ef þú heimilar notkun á ákveðnu bóluefni þá sé vonlaust að fá fólk til að taka þátt í tilraunum á öðrum bóluefnum. „Frá mínum bæjardyrum séð er það algjört skilyrði að sýnt sé fram á það að bóluefnið er öruggt og gagnlegt.“

Bóluefnið hjá Oxford er eitt af mörgum sem nú er í þróun víða um heim. Helstu lyfjafyrirtæki heims eru með klínískar rannsóknir í gangi til að sjá hvort lyf þeirra eru gagnleg. 

Áður hafi FDA gefið út EUA-heimild fyrir notkun lyfsins hýdroxíklórókín í lækningaskyni við COVID-19. Í júlí var fallið frá neyðarheimildinni þar sem malaríulyfið væri ekki nægjanlega öruggt í baráttunni við veiruna.

Hýdroxíklórókín er gamalt lyf sem er á markaði á Íslandi undir nafninu Plaquenil. Farið var að nota lyfið við malaríu upp úr 1950. Enn eldra náskylt lyf er klórókín sem kom á markað upp úr 1930 og er ekki á markaði hér. Þessi tvö lyf hafa svipaðar verkanir og eru, auk þess að gagnast við sumum tegundum malaríu, notuð við nokkrum gigtsjúkdómum.  

Klórókín og hydroxíklórókín hindra vöxt kórónuveira í tilraunaglösum (in vitro) og voru niðurstöður rannsókna sem sýndu það fyrst birtar 2004 og 2005. Snemma í COVID-19-faraldrinum var því farið að prófa þessi lyf í klíniskum rannsóknum (rannsóknum á fólki) þó að engar niðurstöður hefðu verið birtar sem sýndu ótvírætt gagn af þessum lyfjum. Fljótlega var farið að birta rannsóknir sem sýndu misvísandi niðurstöður og voru auk þess litlar og af mismunandi gæðum, að því er segir í grein á Vísindavef Háskóla Íslands.

mbl.is