App sem auðveldar endurvinnslu valið besta lausnin

Sigurvegarar Gagnaþons fyrir umhverfið voru tilkynntir í beinni útsendingu í …
Sigurvegarar Gagnaþons fyrir umhverfið voru tilkynntir í beinni útsendingu í dag. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra afhenti verðlaunin ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands og Ara Kristni Jónssyni, rektor Háskólans í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Appið Flikk flokk, sem auðveldar endurvinnslu með því að veita upplýsingar um hvernig má endurnýta vöru, var valið besta gagnaverkefnið í Gagnaþoninu sem haldið var dagana 12. til 19. ágúst. Davíð Phuong Xuan Nguyen, Róbert Ingi Huldarsson, Þórður Ágústsson og Þórður Friðriksson þróuðu appið og hlutu 750 þúsund krónur í verðlaun.

Sigurvegarar í flokkinum besta endurbætta lausnin voru Renata Bade Barajas og Jillian Verbeurgt með lausn sinni GreenBytes og hlutu þær 450 þúsund krónur í sigurlaun. Lausnin er hugbúnaður sem dregur úr matarsóun veitingastaða með því að nota gervigreind og veðurstofugögn. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Í flokknum besta hugmyndin var það teymið GreenBike sem sigraði með hugmynd sinni Hjólað fyrir umhverfið – app sem heldur utan um sparað kolefnisspor og hvetur til hjólreiða í takt við veðurspá. Teymið samanstendur af þeim Karítas Sif Halldórsdóttur, Guðjóni Hafsteini Kristinssyni og Mörtu Björgvinsdóttur.

„Umhverfismál eru meðal stærstu og mikilvægustu verkefna sem við fáumst við. Viðfangsefnin eru ótalmörg, en mögulegar leiðir og lausnir eru líka ótalmargar. Til að ná sem bestum árangri skiptir öllu að virkja fólk, tækni og skapandi hugsun við mótun lausna. Viðburðir eins og gagnaþonið gegna þar lykilhlutverki, með því að vekja athygli fólks á viðfangsefninu og því mikilvæga hlutverki sem úrvinnsla gagna gegnir í mótun nýrra lausna.

Hugmyndaflug og vinna þátttakenda gagnaþonsins við mótun lausna er hvatning til allra að halda áfram að þróa tækni og lausnir til að ná árangri í umhverfismálum,” sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík um verkefnið.

mbl.is