Vísindin gegni lykilhlutverki í kjölfar faraldursins

„Rannsóknir og nýsköpun skipta sköpum fyrir langvarandi hafsæld, lífsgæði og …
„Rannsóknir og nýsköpun skipta sköpum fyrir langvarandi hafsæld, lífsgæði og sjálfbæra þróun,” segir í stefnunni.

Fjármagn til Rannsóknasjóðs, Tækniþróunarsjóðs og Innviðasjóðs verður aukið um u.þ.b. 50% miðað við fjárlög ársins 2020. Þetta kemur fram í vísinda- og tæknistefnu stjórnvalda fyrir árin 2020 – 2022.

Hlutverk sjóðanna er að styrkja og styðja uppbyggingu á sviði vísinda, rannsókna og tækniþróunar, en efling samkeppnissjóðanna er ein aðgerð af tíu sem kynntar eru í stefnunni.

Meðal annarra aðgerða er að auka gæði í háskólastarfi og efla fjármögnun háskóla, einfalda umsóknarferli um atvinnuleyfi fyrir sérfræðinga utan EES, efla rannsóknir og nýsköpun í umhverfismálum og efla vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.

Stjórnvöld hafi aðgang að ráðgjöf vísindamanna

Í kynningu stefnunnar segir að Vísinda- og tækniráð leggi áherslu á að vísindi og nýsköpun gegni lykilhlutverki í viðspyrnunni við þeim áhrifum sem kórónuveirufaraldurinn hafi haft á framtíðarhorfur og atvinnulíf hér á landi.

„Rannsóknir og nýsköpun skipta sköpum fyrir langvarandi hafsæld, lífsgæði og sjálfbæra þróun,” segir í stefnunni.

Mikilvægt sé að stjórnvöld hafi aðgang að góðri ráðgjöf vísindamanna til að skilja eðli samfélagslegra áskorana og til að bregðast við þeim á árangursríkan hátt.

AFP

Til að tryggja að stefna og aðgerðir stjórnvalda séu markvissar og byggi á réttum upplýsingum verður sett um svokallað mælaborð nýsköpunar, sem verði eins konar stjórnborð sem birtir með myndrænum ætti upplýsingar um stöðu, þróun og horfur lykilþátta í vistkerfi nýsköpunar hér á landi.

Ísland kemur vel út í alþjóðlegum samanburði á sviði tæki og vísinda. Ísland er í sjöunda sæti á alþjóðlegum lista yfir umhverfi og aðstæður frumkvöðla, og er hlutfall kvenna meðal vísindamanna 46,4%, töluvert hærra en meðalhlutfall í ESB, sem er 30,2%.

Þá er hlutfall starfsmanna í einkageiranum sem vinnur í þekkingarstörfum það hæsta á norðurlöndunum, eða um 20%.

mbl.is