Ný útgáfa íslenska vafrans Vivaldi

Ný útgáfa Vivaldi-vafrans er komin út.
Ný útgáfa Vivaldi-vafrans er komin út. Skjáskot/Vivaldi

Ný útgáfa norsk-íslenska netvafrans Vivaldi, 3.3., er komin út. Ýmsar breytingar er þar að finna, sem miða að því að bæta upplifun notenda af vafranum en einnig auka öryggi.

Í nýju útgáfunni er notendum gert auðveldara fyrir að þekkja óþekktar eða ólöglegar vefsíður. Þegar vefsíða er opnuð er aðalhluti veffangsins feitleitraður þannig að minni áhersla verður á restina af því, en þetta er sagt varpa skýrara ljósiá hvaða fyrirtæki stýrir léninu.  Innbyggðar rekjara- og auglýsingavarnir styðjast nú við reglur sem gera notendum kleift að vafra á mun öruggari hátt en áður.

Í nýju útgáfunni er notendum enn fremur boðið upp á að sérsníða að vild útlit einkaglugga (incognito mode) svo hann verði auðþekkjanlegur frá hefðbundnum vafragluggum.

Svokallaður hvíldarhamur hefur verið kynntur til sögunnar, sem gefur notendum færi á að taka pásu frá netheimum og einbeita sér að einhverju öðru. Þegar pásan er virkjuð stöðvast öll hljóð- og myndspilun, opnir gluggar eru faldir og eftir stendur auður skjár. Geta notendur þá einbeitt sér að einhverju öðru. Þetta hefur fólk hingað til leyst með því að slökkva á tölvuskjánum.

Veffangastika Vivaldi-vafrans hefur einnig verið betrumbætt. Nú er hægt að velja hluta af veffanginu með því að ýta á CTRL (⌘ á Mac) og smella. Þannig getur notandi auðveldlega fært sig innan veftrés síðunnar sem verið er að skoða.

Vivaldi-vafrinn er framleiddur af fyrirtækinu Vivaldi Technologies, sem er norsk-íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki, stofnað af Jóni von Tetzchner. Fyrirtækið hefur höfuðstöðvar í Ósló en það hefur einnig skrifstofur í Reykjavík, Boston og Palo Alto.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert