„Brjálæðislega spenntur fyrir þessu“

Myndir af Venusi sem voru teknar af könnunarfarinu Mariner 10.
Myndir af Venusi sem voru teknar af könnunarfarinu Mariner 10. Ljósmynd/Nasa

Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur og ritstjóri Stjörnufræðvefjarins, segir uppgötvunina um að gastegundin fosfín hafi fundist í skýjum Venusar vera afar merkilega.

„Þetta hefur alla möguleika á að vera alveg brjálæðislega merkileg uppgötvun, sérstaklega ef það finnast örverur á lífi,“ segir hann aðspurður.

Verður til innan í dýrum 

Gastegundin verður til hér á jörðu innan í dýrum þar sem súrefni nær ekki til. Tilteknar örverur gefa frá sér fosfín sem úrgangsefni, segir Sævar Helgi og nefnir að bakteríur innan í dýrum á fenjasvæðum gefi gasið frá sér.

Hann segir baneitrað fyrir mannfólk að anda gasinu að sér en að það geti þó myndast í „rosalega litlu magni“ í meltingarfærum okkar, sem og í öðrum dýrum. Einnig getur það myndast á urðunarstöðum þar sem ekkert súrefni kemst í tæri við það. Bakteríurnar gefa gasið þá frá sér, sem er illa þefjandi. 

Sævar Helgi Bragason.
Sævar Helgi Bragason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Svífa um loftin gul 

Að sögn Sævars Helga hefur gasið fundist í það miklu magni í skýjunum yfir Venusi að mjög erfitt er að útskýra hvers vegna. „Það getur vel verið að þetta sé ferli sem á sér stað sem við þekkjum ekki og er ekki líf en eins og sakir standa er þetta ágætistilgáta að þetta sé komið frá örverum sem svífa ekki um loftin blá heldur loftin gul á Venusi,“ greinir hann frá.

Hann nefnir að í skýjum jarðar séu örverur en á Venusi þyrftu þær að þola mjög mikla sýru vegna þess að skýin á Venusi eru úr brennisteinssýru. Á Venusi þyrftu þær því að vera mjög harðgerðar.

Fosfín fannst á Venusi.
Fosfín fannst á Venusi. AFP

Kallar á geimferðir til Venusar

Vísindamennirnir sem birtu niðurstöður sínar bíða nú viðbragða frá öðrum vísindamönnum í von um að menn finni út hvað er á seyði í andrúmslofti plánetunnar, hvað það er sem býr til gasið. „Lífs-skýringin er skemmtilegust, af því að hún yrði stórkostlegust,“ segir Sævar en tekur fram að menn verði að vera sérstaklega varkárir í rannsóknum sínum, einmitt vegna þess.

„Þetta kallar á aðra sjónauka og jafnvel geimferðir til Venusar,“ segir hann spurður enn frekar út í næstu skref. Hann segir slíkar geimferðir vera á teikniborðinu, m.a. að senda loftbelgi í andrúmsloft Venusar. Hann bætir við að eins og sakir standa sé fleira áhugavert við Venus heldur en Mars í sambandi við líf á öðrum hnöttum.

Sævar kveðst hafa verið nokkuð hissa þegar hann frétti af þessu fyrir tíu dögum. Eftir það kynnti hann sér málið vel og las ýmsar vísindagreinar. Hann fylltist í kjölfarið bjartsýni um að mögulega gæti verið líf á Venusi. „Ég er orðinn brjálæðislega spenntur fyrir þessu og vil sjá geimfar fara á staðinn.“

Umfjöllun Stjörnufræðivefjarins

mbl.is