Hefur fengið Covid-19 í tvígang

Kórónuveiran lítur svona út.
Kórónuveiran lítur svona út. AFP

Bandarískur maður hefur fengið kórónuveiruna í tvígang en varð mun veikari í seinna skiptið. Þetta kemur fram í frétt BBC og er vísað í grein eftir lækna og prófessora í læknaritinu Lancet.

Maðurinn, sem er búsettur í Nevada, er 25 ára gamall og þurfti á sjúkrahússinnlögn að halda vegna öndunarerfiðleika. Hann náði bata og er heill heilsu í dag en hann er ekki með undirliggjandi sjúkdóma né gallað ónæmiskerfi sem gæti skýrt á einhvern hátt hvers vegna hann veiktist að nýju.

Í svari sem Jón Magnús Jóhannesson læknir ritar á Vísindavefinn og birtist 18. september kemur fram að upp á síðkastið hafi greinst nokkur tilfelli endursýkinga af COVID-19.

„Í raun kemur það ekki á óvart en skiljanlega hefur talsverður ótti fylgt þessum fregnum. Hingað til er aðeins vitað um eitt afbrigði af orsakavaldi COVID-19 (SARS-CoV-2). Engin gögn sýna áreiðanlega fram á að veiran hafi breyst marktækt hvað varðar alvarleika þeirra veikinda sem hún veldur, smithæfni eða aðra eiginleika. Í ljósi þessa á ónæmissvar gegn einni veiruögn SARS-CoV-2 að duga fyrir allar aðrar agnir veirunnar. Hvernig getur endursýking þá átt sér stað?“

Þó nær allar sýkingar kveiki á ónæmissvari eru ekki öll ónæmissvör gagnleg til að koma í veg fyrir sýkingu. Sum ná að koma alveg í veg fyrir sýkingu  þá er talað um svokallað sterílíserandi ónæmi. Önnur ónæmissvör koma ekki í veg fyrir sýkingu en hindra þróun á alvarlegum sjúkdómi vegna sýkingarinnar  þá er talað um verndandi ónæmi. Enn önnur ónæmissvör ná hreinlega ekki fram viðunandi vörn til að koma í veg fyrir sýkingu eða sjúkdóm, segir í svari Jóns Magnúsar.

Margar ástæður geta verið fyrir því að nægjanleg vörn myndast ekki en gróflega má skipta þeim í þrennt: 

  1. Ónæmi varir ekki nógu lengi: þetta er nokkuð algengt og má sjá við ýmsar öndunarfærasýkingar (meðal annars ónæmi gegn öðrum kórónuveirum sem valda oftast vægu kvefi).
  2. Ónæmiskerfið missir getu til að þekkja sýkingarvaldinn: þetta verður oftast vegna breytinga á sýkingarvaldinum sjálfum, meðal annars vegna stökkbreytinga (til dæmis hjá lifrarbólgu C-veirunni) en einnig vegna breytinga á yfirborði sýkingarvaldsins án vissra stökkbreytinga (til dæmis hjá bakteríunni sem veldur lekanda).
  3. Ónæmissvarið virkar hreinlega ekki: þetta getur verið vegna staðsetningar sýkilsins eða hvernig sýkillinn starfar í líkamanum  gott dæmi er HIV (e. human immunodeficiency virus), bæði getur yfirborð veirunnar breyst vegna stökkbreytinga og einnig getur veiran falið sig inni í ónæmisfrumunum sjálfum og þannig komið í veg fyrir að ónæmiskerfið nái til hennar.

Í frétt BBC segir að rannsóknin sem er birt í Lancet veki spurningar um hversu mikið ónæmi hægt sé að byggja upp gegn veirunni. 

  • 25. mars fær hann fyrstu einkenni Covid-19, særindi í hálsi, hósta, höfuðverk, ógleði og niðurgang
  • 18. apríl greinist hann jákvæður við skimun í fyrsta skipti
  • 27. apríl er hann orðinn einkennalaus.
  • 9. og 26. maí er hann neikvæður við sýnatökur
  • 28. maí fær maðurinn sjúkdómseinkenni að nýju. Í þetta skipti fær hann hita, höfuðverk, svima, hósta, ógleði og niðurgang
  • 5. júní er hann greindur jákvæður að nýju og glímir við öndunarerfiðleika vegna lítils magns súrefnis í blóði 

Vísindamenn telja að maðurinn hafi sýkst í tvígang frekar en að sjúkdómurinn hafi verið í tímabundinni lægð og blossað upp að nýju. Rannsókn sýnir fram á að ekki er um endursýkingu að ræða.

Haft er eftir dr. Mark Pandori, lækni við háskólann í Nevada, að rannsóknir þeirra sýni að fyrri sýking komi ekki alltaf í veg fyrir sýkingu síðar. Hann segir að fólk sem hafi náð bata ætti áfram að fylgja sóttvarnareglum hvað varðar fjarlægð, grímunotkun og handþvott. 

Tekið er fram í frétt BBC að afar sjaldgæft sé að fólk smitist aftur af Covid-19 og örfá dæmi um það meðal þeirra rúmlega 37 milljóna sem hafa veikst og staðfest er að hafi fengið kórónuveiruna. Jafnframt að ekki sé hægt að alhæfa neitt hér um þar sem þörf er á frekari rannsóknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert