Segja Viruxal virka hraðar en áður var talið

Úðarnir frá Viruxal.
Úðarnir frá Viruxal. Ljósmynd/Aðsend

Forsvarsmenn Viruxal segja Viruxal-efnið sundra kórónaveirunni hraðar en áður var talið. Þá er það fullyrt að Viruxal geti einnig eytt inflúensuveirunni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu sem er dótturfyrirtæki Kerecis á Ísafirði. 

Viruxal þróar, framleiðir og selur lækningarvörurnar ViruxNasal nefúða og ViruxOral munnúða sem mynda tímabundið varnarlag gegn veirusmitum. Leyfilegt er að nota hann allt að sex sinnum á dag í nef og þrisvar í munn en er hugsaður til þess að veita auka vörn þegar fólk er mögulega útsett fyrir smiti „eins og auka gríma“. 

Dóra Hlín Gísladóttir, framkvæmdastjóri Viruxal ehf., segir í samtali við mbl.is að nýjar rannsóknir sem framkvæmdar hafi verið í samvinnu við Utah State-háskóla í Bandaríkjunum, sýni að varnarlagið eyði kórónaveirunni (SARS-CoV-2) á skemmri tíma en áður var talið.

Niðurstöður rannsóknarinnar hafa ekki verið birtar en Dóra Hlín segir  unnið að birtingu þeirra. 

Dóra Hlín Gísladóttir framkvæmdastjóri Viruxal ehf.
Dóra Hlín Gísladóttir framkvæmdastjóri Viruxal ehf. Ljósmynd/Aðsend

Þá segir hún sömu rannsóknir sýna að efnið eyði einnig inflúensuveirunni.

Dóra segir öryggisprófanir hafa verið gerðar á dýrum og séu nú gerðar á mönnum en virkniprófanir hafi verið gerðar í tilraunaglasi, in vitro. 

Úðarnir eru komnir á markað og fást í öllum apótekum og er framleiddur á Ísafirði. Dóra Hlín segir markaðinn hafa tekið vel í vöruna og unnið að útflutningsleyfum 

mbl.is