Styttist í að dragi til tíðinda

Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi sem raða sér skáhallt eftir honum í NA-SV-stefnu. Vestast er Reykjaneskerfið og austar koma kerfi kennd við Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og að síðustu Hengil. Rannsóknir hafa leitt í ljós að gosið hefur í kerfunum á 900-1100 ára fresti.

Þetta kemur fram í yfirliti á vef Íslenskra orkurannsókna ÍSOR þar sem birt er yfirlit um síðasta gosskeið á Reykjanesskaga; 800-1240.

Bent er á að haldist sami taktur í eldvirkni á Reykjanesskaga og verið hefur síðustu árþúsundin styttist í að dragi til tíðinda.

Allgóð þekking er til staðar um þrjú síðustu gosskeiðin á Reykjanesskaga sem stóðu yfir fyrir 3.000-3.500 árum, 1.900-2.400 árum og svo 800-1240 e.Kr.  Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár en á þeim þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk en þó yfirleitt ekki á sama tíma. Einkennist gosvirknin af eldum sem standa í nokkra áratugi hver. Hraunin renna frá gossprungum sem geta orðið allt að 12 km langar. Stök hraun eru innan við 25 km2 að stærð, flest mun minni,“ kemur fram á vef ÍSOR.

Á síðasta gosskeiði hófst virknin í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Rannsóknir benda til að þar hafi gosið samtímis eða því sem næst. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraun. Á 10. öld gaus síðan aftur í Brennisteinsfjallakerfinu og runnu þá m.a. Svínahraunsbruni (Kristnitökuhraun) í Þrengslum, Húsafellsbruni í Heiðmörk, Breiðdalshraun, Selvogshraun og Tvíbollahraun/Hellnahraun.

Ekki er útilokað að einhver þessara hrauna hafi runnið á fyrri hluta 11. aldar. Um hálfri annarri öld eftir að þessum eldum lauk hófst gos í Krýsuvíkurkerfinu um miðja 12. öld, líklega árið 1151. Nefnast þessir eldar Krýsuvíkureldar. Ritaðar heimildir benda til að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, sem er þeirra syðst, Mávahlíðarhraun og Kapelluhraun. Ögmundarhraun eyddi a.m.k. einu býli sem sjá má merki um í óbrennishólmum. Eftir um 20 ára hlé hefjast síðan Reykjaneseldar sem stóðu yfir á tímabilinu 1210-1240 og marka lok um 450 ára langs eldsumbrotaskeiðs,“ kemur enn fremur fram.

mbl.is