Geti þurft að borga fyrir Facebook og Instagram

iOS 14.5 hefur þótt stórt stökk upp á við hvað …
iOS 14.5 hefur þótt stórt stökk upp á við hvað varðar öryggi og friðhelgi einkalífs notenda iOS tækja. Facebook ýjar að því að forritin verði ekki alltaf gjaldfrjáls. Ljósmynd/Facebook

„Við notum upplýsingar um athafnir þínar í öðrum forritum til þess að hjálpa við að halda Facebook/Instagram ókeypis.“ Þetta er það fyrsta sem birtist á skjám þeirra notenda sem fara á Facebook eða Instagram eftir nýja uppfærslu Apple á iOS-stýrikerfinu.

Í kjölfar uppfærslunnar geta notendur nú stjórnað betur hversu mikið forrit rekja gjörðir þeirra.

Þetta hefur þótt stórt stökk upp á við hvað varðar öryggi og friðhelgi einkalífs notenda iOS-tækja svo sem iPhone-snjallsíma og iPad-spjaldtölva. Á sama tíma hafa Facebook sagt uppfærsluna koma niður á smærri fyrirtækjum.

Greiðir með upplýsingum um þig

Hafni 80% iOS-notenda að Facebook reki spor sín milli forrita, eins og skoðanakannanir benda til, er ljóst að Facebook munu verða af gríðarlegum fjármunum sem þau hefðu annars fengið í formi auglýsingatekna.

Því mætti segja að með orðunum „hjálpið að halda forritunum ókeypis“ sé í raun verið að viðurkenna að þú borgir fyrir þau með friðhelgi einkalífsins þíns og á sama tíma verið að ýja að því að gerir þú það ekki munir þú á endanum þurfa að greiða í formi peninga.

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook.
Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook. AFP

Snýst um val, segir Apple

Facebook hefur lengi verið harðlega gagnrýnt fyrir magn og meðhöndlun þeirra persónuupplýsinga sem fyrirtækið safnar um notendur sína og má þar helst nefna Cambridge Analytica hneykslið.

Nú vill Facebook aftur á móti meina að um sé að ræða mál er snýr að endurreisn smærri fyrirtækja sem hafa átt undir högg að sækja í heimsfaraldrinum og reiði sig mikið á auglýsingakerfi Facebook. Segir fyrirtækið málið snúast um hagnað en ekki öryggi af hálfu Apple. Apple segir þetta hins vegar snúast um val.

mbl.is

Bloggað um fréttina