Mikil líkamsrækt eykur hættu á MND

Efnt var til ísfötuáskorunar fyrir nokkrum árum til að vekja …
Efnt var til ísfötuáskorunar fyrir nokkrum árum til að vekja athygli á sjúkdómnum MND. Hér sést framkvæmdastjóri San Francisco Giants taka áskoruninni. AFP

Reglubundin og erfið líkamsrækt eykur hættuna á MND-sjúkdómi hjá fólki sem er erfðafræðilega viðkvæmt fyrir.

Vísindamenn við Sheffield-háskóla segja að enginn eigi að hætta að æfa vegna niðurstöðu rannsóknar þeirra.

Þeir vonast samt til að niðurstaðan verði til þess að auðveldara verði að greina fólk sem gæti verið í áhættuhópi og veita því rétta meðhöndlun.

Í heildina fær einn af hverjum 300 MND-sjúkdóminn, að því er BBC greinir frá.

Hann hefur áhrif á hreyfingu, tal og jafnvel andardrátt fólks og getur dregið mjög úr lífslíkum.

Ekki er ljóst hvers vegna sumir fá sjúkdóminn en talið er að ástæðan sé blanda af erfðafræðilegum þáttum og umhverfisþáttum.

Lengi hafa verið talin tengsl á milli líkamsræktar og sjúkdómsins en hvort hún hafi verið alvöru „ástæða“ eða bara tilviljun hefur verið umdeilt.

Rannsóknir á ítölskum knattspyrnumönnum sýndu að allt að sex sinnum meiri líkur á sjúkdómnum voru hjá þeim en hjá öðru fólki. Á meðal breskra íþróttamanna sem hafa tjáð sig opinberlega um sjúkdóminn eru Rob Burrow, Stephen Darby og Doddie Weir.

„Við teljum að líkamsrækt sé áhættuþáttur vegna MND-sjúkdómsins,“ sagði dr. Johnathan Cooper-Knock, einn af vísindamönnunum sem gerðu rannsóknina.

„Fjöldi þekktra íþróttamanna sem hefur fengið MND er engin tilviljun.“

mbl.is