Uppfæra umdeilda samlokusíma

Af blaðamannafundinum þar sem símarnir voru kynntir.
Af blaðamannafundinum þar sem símarnir voru kynntir. Skjáskot/Twitter

Tæknirisinn Samsung kynnti í dag þriðju kynslóð samlokusíma sinna, Galaxy Z Fold og hins minni Galaxy Z Flip.

Fyrstu tvær kynslóðir símanna hafa hingað til ekki notið sérstakra vinsælda meðal almennings, en þó hefur tæknisérfræðingum þótt áhugavert að sjá hvernig tækninni miðar áfram.

Símarnir hafa hingað til kostað fúlgur fjár og lítið framboð verið á þeim, sem og eftirspurn eftir þeim, hér á landi og víðar. Því verður fróðlegt að sjá hvernig nýrri kynslóð mun vegna.

Færast nær almenna markaðinum

Talið er að Samsung undirbúi nú að markaðssetja símana fyrir almenning, segir á vef BBC. Þá lækkuðu þeir verð símanna og hafa stóraukið byggingu og þar með endingu símanna svo þeir seljist betur. Til að mynda eru báðir símarnir með IPX8 rakavörn en enn vantar upp á rykvörn líkt og nær allir snjallsímar hafa í dag. Þar að auki er frammyndavél Fold-símans undir skjánum og búið að bæta við stuðningi fyrir S-penna.

Það vakti athygli fyrir rúmum tveimur árum þegar fyrsta kynslóð Galaxy Fold símans tók að bila innan nokkurra daga í forprófun blaðamanna auk þess sem hann var talinn of brothættur til að hægt væri að mæla með honum.

Sérfræðingar hafa þó sagt að ólíklegt sé að símarnir muni seljast vel og enn sé dágóður tími í að samlokusímar fari að sjást meira á götunum að nýju. Til að mynda þykir varhugavert að Apple, helsti samkeppnisaðili Samsung á snjallsímamarkaðnum, sé lítið farinn að elta samkeppnina í samlokusímum.

Varhugavert þykir að Apple, helsti samkeppnisaðili Samsung á snjallsímamarkaðnum, sé …
Varhugavert þykir að Apple, helsti samkeppnisaðili Samsung á snjallsímamarkaðnum, sé lítið farinn að elta samkeppnina í samlokusímum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert