Galaxy Fold sé viðkvæmari en Fabergé-egg

Stern segist alls ekki geta mælt með því að fólk …
Stern segist alls ekki geta mælt með því að fólk kaupi þessa græju. Ástæðan: Þetta er 2.000 dollara snjallsími sem þarf að meðhöndla með varfærnari hætti en Fabergé-egg. AFP

Samsung Galaxy Fold, samanbrjótanlegi snjallsíminn sem brotnaði, kom á markað í nýrri útgáfu í síðasta mánuði. Fyrst átti síminn að koma á markað í Bandaríkjunum og víðar í aprílmánuði, en frá því var horfið eftir að í ljós kom að símar, sem sendir voru til tækniblaðamanna víða um heim, brotnuðu eða biluðu í þeirra höndum.

Samsung lagðist undir feld og gerði úrbætur á símanum og nú hafa ýmsir tækniblaðamenn skilað af sér umsögn um endurbætta útgáfu. Einn þeirra er Joanna Stern hjá Wall Street Journal. Í umsögn sinni, sem birtist í dag, segir hún að síminn sé sá mest spennandi sem komið hafi á markað í mörg ár, fólk hafi meira að segja stöðvað hana úti á götu og spurt hana út í símann er hún tekur hann úr vasanum og flettir í sundur 7,3 tommu spjaldtölvu.

Stern segist þó alls ekki geta mælt með því að fólk kaupi þessa græju. Ástæðan: Þetta er 2.000 dollara snjallsími sem þarf að meðhöndla með varfærnari hætti en Fabergé-egg.

Símanum fylgja 115 orð af varúðarleiðbeiningum. Þar kemur meðal annars fram að ekki skuli þrýsta á skjáinn með beittum hlutum, en plastfilma þekur skjáinn og hefur Samsung sett ramma utan um hana í endurbættri útgáfu til þess að hún verði ekki rifin af, en það gerðu margir við fyrri útgáfu símans. Stern segir að þegar sé komin rispa í plastið eftir fingurnögl hennar, eftir tíu daga notkun.

Fabergé-egg eru gríðarverðmætir dýrgripir sem framleiddir voru í St. Pétursborg …
Fabergé-egg eru gríðarverðmætir dýrgripir sem framleiddir voru í St. Pétursborg í Rússlandi undir lok 19. aldar og inn í 20. öldina.

Þá er síminn ekki vatnsheldur né rykheldur og er það sérstaklega tekið fram að hann skuli ekki komast í snertingu við vökva eða smáagnir. Einnig tekur Samsung fram að síminn eigi ekki að geymast nærri greiðslukortum, lækningatækjum eða neinu sem gæti orðið fyrir áhrifum af seglum.

„Gott að síma eru aldrei í sama vasa og kreditkort,“ skrifar Stern í örgustu kaldhæðni í umsögn sinni, þar sem einnig segir að þrátt fyrr að Galaxy Fold hafi sloppið of snemma af teikniborðinu hjá Samsung, kenni hann okkur sitthvað um framtíð snjallsíma.

Fimm lexíur um framtíðina

Stern segir að stór 7,3 tommu skjár símans hafi reynst henni vel og að stórir skjáir séu framtíðin. Það hafi verið ánægjulegra að horfa á myndbönd til dægrastyttingar á leið til og frá vinnu en á 6,1 tommu skjá iPhone símans sem hún notast alla jafna við, svo dæmi sé tekið. Hún lastar hins vegar 4,6 tommu ytri skjá símans og sagði að hann væri einfaldlega ekki nógu stór. Henni hafi langað að vera með „dúkkuhendur“ er hún þurfti að senda snögg textaskilaboð og oftast gefist upp og flett stóra skjánum fram.

Þá segir hún að hugbúnaður sé framtíðin. Hún var hrifin af því hvernig hægt var að vinna með tvö öpp á sama tíma á stóra skjánum í Android-kerfi símans og hvernig öppin fluttust yfir á stóra skjáinn er hún fletti símanum í sundur, þrátt fyrir smávægilega hnökra.

Ytri skjár símans, 4,6 tommu, er of lítill að mati …
Ytri skjár símans, 4,6 tommu, er of lítill að mati Stern. AFP

Stern segir einnig að framtíðin sé þráðlaus. Galaxy Fold styður þráðlausa hleðslu, rétt eins og Galaxy S10 og Note 10, og getur snjallsíminn þannig deilt orku sinni með öðrum símum, jafnvel iPhone-símum sem styðja þráðlausa orkuupptöku.

Fjórða atriðið sem Stern nefnir er að framtíðin sé dýr. Rándýr. „Síðustu ár hafa kennt okkur að verð á snjallsímum hafa engin takmörk. Þau hafa einnig kennt okkur að hluti kaupenda er tilbúinn að borga 1.000 dollurum meira fyrir nýsköpun,“ segir Stern og bætir við að þrátt fyrir að þessi útgáfa Galaxy Fold sé ekki sú nýsköpun sem fólk ætti að kaupa í dag, megi ekki búast við því að verðið á endurbættri útgáfu símans verði lægra er hann kemur á markað.

Að lokum nefnir Stern að framtíðin sé ekki brothætt, eins og þessi Galaxy Fold sími sannarlega sé. Hún telur að fáir muni vilja vera með tæki sem er jafn viðkvæmt og þetta í daglegri notkun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert