Fullorðnir sofa jafnvel lengur en áður

Fullnægjandi svefn er oftast skilgreindur sem sá tími sem viðkomandi …
Fullnægjandi svefn er oftast skilgreindur sem sá tími sem viðkomandi þarf að sofa til þess að vakna endurnærður. mbl.is/Thinkstockphotos

Lengi hefur því verið haldið fram að börn og unglingar sofi skemur en þau gerðu áður fyrr en efasamdir eru um að sú fullyrðing styðjist við vísindaleg gögn. 

Þetta kemur fram í greininni Er svefn Íslendinga að styttast? Yfirlitsgrein um svefnlengd og svefnvenjur sem birtist í Læknablaðinu.

Þegar niðurstöður rannsókna á svefnlengd tæplega 700.000 barna í 20 löndum á árunum 1905 til 2008 voru dregnar saman, kom vissulega í ljós að svefnlengd hafði styst að meðaltali um 0,75 mínútur á ári, þegar litið var til alls hópsins, eða um rúma eina klukkustund á liðlega einni öld.

Rannsóknin sýndi að svefn barna og unglinga hafði lengst á Norðurlöndum, í Ástralíu og Bretlandi, en styst í öðrum löndum á þessu tímabili. Þar var jafnframt bent á að þótt svefn barna og unglinga hafi styst frá 1905 jafngilti það ekki ónógum svefni og óvíst hvort sú stytting hafi áhrif á heilsu og líðan.

Efasemdir um að fleiri sofi minna en sex klukkustundir

Í greininni kemur enn fremur fram að rannsóknir á svefnlengd fullorðinna, gerðar með huglægu mati, hafi vakið efasemdir um þá staðhæfingu að svefn hafi styst verulega á undanförnum áratugum og fleiri sofi of stutt, það er minna en sex klukkustundir.

„Samsvarandi rannsóknir sem gerðar voru með hlutlægu mati á árunum 1960-2013 sýndu líka að svefn fullorðinna styttist ekki á því tímabili. Enn aðrar rannsóknir sýna lengri svefn fullorðinna og að hlutfall þeirra sem sofa lengi sé heldur að aukast,“ segir í greininni.

Bent er á að erfitt sé að meta hvort breyting hafi orðið á svefnlengd Íslendinga undanfarna áratugi þar sem úrtak, aðferðir og aldur þátttakenda í rannsóknum er ekki eins. Eina rannsóknin sem skoðaði sama hóp með sömu aðferðum sýndi að á 10 ára tímabili (1985-1995) varð ekki marktæk breyting á svefnlengd Íslendinga á aldrinum 16-29 ára.

Greinina má nálgast í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert