Sakar olíufyrirtæki um „stóra lygi“

Antonio Guterres á ráðstefnunni í morgun.
Antonio Guterres á ráðstefnunni í morgun. AFP/Fabrice Coffrini

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, sakar olíufyrirtæki um „stóra lygi“ í tengslum við hlutverk þeirra í hlýnun jarðar og vill að þau verið látin sæta ábyrgð.

„Sumir hjá stóru olíufyrirtækjunum buðu upp á stóra lygi,“ sagði Guetters á ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economics Forum) í svissnesku borginni Davos.

Vika er liðin síðan rannsókn var birt þar sem kom fram að fyrirtækið ExxonMobil vísaði á bug niðurstöðum sinna eigin vísindamanna um hlutverk jarðefnaeldsneytis í loftslagsbreytingum.

Bensínstöð Exxon í Bandaríkunum.
Bensínstöð Exxon í Bandaríkunum. AFP/Saul Loeb

„Við fréttum af því í síðustu viku að ákveðnir framleiðendur jarðefnaeldsneytis vissu það fyllilega á áttunda áratugnum að helsta varan þeirra var að baka plánetuna okkar,“ sagði Guterres.

„Alveg eins og með tóbaksiðnaðinn þá hlustuðu þeir ekki á sín eigin vísindi,“ bætti hann við. „Og alveg eins og með tóbaksiðnaðinn þá verða þeir sem báru ábyrgð á þessu að svara til saka.“

Árið 1998 náðu bandarísk ríki tímamótasátt um að tóbaksfyrirtæki skyldu greiða 246 milljarða dollara til að bæta fyrir kostnaðinn sem hafði hlotist af læknismeðferðum reykingafólks.

Í niðurstöðum rannsóknar sem ExxonMobil birti í tímaritinu Science í síðustu viku kom fram að vísindamenn fyrirtækisins sáu hlýnun jarðar fyrir „með sjokkerandi nákvæmni“. Þrátt fyrir það kemur fram að fyrirtækið hafi eytt næstu tveimur áratugum í að afneita þessum sömu loftslagsvísindum.

mbl.is

Bloggað um fréttina